138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns er já. Það kom mér verulega á óvart að hæstv. forsætisráðherra skyldi skipa þessa nefnd en ekki leyfa þingmannanefndinni sem skipuð er lögum samkvæmt að vinna þá vinnu sem þessi tiltekni starfshópur tók að sér. Ég veit ekki til þess að skipan þess starfshóps, sem var ef ég man rétt undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar prófessors, hafi stuðst við einhverjar lagaheimildir. Þar var frekar á ferðinni einhver einleikur hæstv. forsætisráðherra til að taka málið í sínar hendur og fá nefnd sem hún skipaði en þingið átti enga aðkomu að til að fara yfir hugmyndir sem hæstv. forsætisráðherra hefur hugsanlega sjálf viljað koma í einhvern farveg og hrinda í framkvæmd. Þessi tiltekni starfshópur þótt ágætur sé er ekki í nokkru samræmi við það vinnulag sem lagt var upp með í upphafi á þinginu um það hvernig fara ætti með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Út af fyrri hluta andsvars hv. þingmanns vil ég taka fram að ég var ekki með neinar dylgjur í garð framsóknarmanna. (Gripið fram í: Víst.) Síður en svo. Þau mál sem hér hafa verið afgreidd og framsóknarmenn hafa lagt fram eru góð mál sem ég hef stutt en ég þekki mitt heimafólk hafandi setið hér í býsna mörg ár og ég veit að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa fram til þessa ekki verið sérstaklega viljug til að greiða fyrir afgreiðslu mála frá öðrum stjórnmálaflokkum. Þess vegna varpaði ég (Forseti hringir.) þessum spurningum fram hvort það gæti verið að hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) væri að reyna að kaupa sér einhvern frið hjá Framsóknarflokknum (Forseti hringir.) með þessari framkomu.