138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hafi hann verið staddur í þingsal þegar hæstv. utanríkisráðherra fór í andsvar við mig, þá virðist hann alla vegana ekki vera að kaupa sér frið hjá mér, svo æstur verður hann sífellt í andsvörum við ræður mínar. En hæstv. utanríkisráðherra verður að eiga það við hjarta sitt hví hann bregst svo illa við í hvert sinn sem ég tek til máls.

Það er akkúrat þetta varðandi þá þingmannanefnd sem fer hér yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hvers vegna í ósköpunum greip ríkisstjórnin til þess ráðs að framleiða frumvörp á færibandi, leggja fyrir þingið, koma þeim í ósátt í gegnum nefndir Alþingis og reyna að gera þau að lögum á meðan að í skipunarbréfi þingmannanefndarinnar stendur að þegar nefndin hafi lokið störfum sínum eigi hún m.a. að leggja fram breytingar á lagafrumvörpum og bæta þau lög sem þarf að bæta og sem ollu því að hér varð hrun? Þessi þingmannanefnd á m.a. að taka af skarið um það hvort kveðja eigi saman landsdóm eða ekki hafi ráðherrar orðið brotlegir. Þessi nefnd hefur fullt stjórnskipulegt umboð frá þinginu og þess vegna er fáránlegt að svo mörg lagafrumvörp skuli vera komin inn í þingið áður en þingmannanefndin hefur lokið störfum sínum. Ég hef bent á þetta, bæði í ræðu minni í dag og í andsvörum sem ég hef flutt. Hver er ástæðan, að mati hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, fyrir því að svo mikill flýtir er á ríkisstjórninni eins og t.d. í stjórnarráðsmálinu, að búið sé að stofna lagaskrifstofu hjá forsætisráðuneytinu? Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki tíma (Forseti hringir.) til að bíða eftir þingmannanefndinni sem fer yfir skýrslu rannsóknarnefndar?