138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra gangist við því að vera á skilorði í ríkisstjórninni. Hann er reyndar yfirlýsingaglaður gagnvart sjálfum sér. Stundum segist hann vera ráðherra á plani, nú er hann ráðherra á skilorði. (Utanrrh.: Ég er alþýðupungur.) Já, já, það má vel vera að hæstv. ráðherra sé sá sem hann kallar fram í að hann sé og ég ætla ekki að hafa eftir, en hann lýsti því yfir að það væri ekkert einsdæmi að ráðherrar væru kallaðir á fund í Stjórnarráðinu. Hann væri oft kallaður þar á teppið og það finnst mér ekkert skrýtið vegna þess að mér finnst hæstv. ráðherra oft eiga það skilið að við hann sé rætt vegna framgöngu sinnar. En munurinn á þeim fundum sem hann er boðaður á hjá hæstv. forsætisráðherra og þeim fundi sem ég vísaði til var sá að hæstv. núverandi ráðherra, Ögmundur Jónasson, var ekki orðinn ráðherra þegar hann var kallaður á teppið. Þetta voru fyrirbyggjandi aðgerðir hjá hæstv. forsætisráðherra sem vildi fullvissa sig um að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson yrði ekki til vandræða í ríkisstjórninni fengi hann þar sæti. (Utanrrh.: Mönnum eru bara lagðar lífsreglur, er eitthvað óeðlilegt við það?) Þannig er þetta.

Ég stend við það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar. Frumvarpið sem við ræðum hér var auðvitað í upphafi pólitískt uppsagnarbréf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar. Jón Bjarnason, hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, var frá upphafi á móti þessu frumvarpi og stór hluti þingflokks Vinstri grænna og andstaðan var svo mikil að hæstv. ráðherra í félagi við tvo lykilþingmenn í þingflokki Vinstri grænna sendu frá sér bókun þar sem þeir mótmæltu efni frumvarpsins og vinnubrögðum forsætisráðherra við framlagningu og samningu þess. (Utanrrh.: Menn eru nú teknir á teppið fyrir minna en það.) Það er alveg ljóst hver upphaflegur tilgangur frumvarpsins var (Forseti hringir.) og ég vona að hæstv. ráðherra sé ekki svo skyni skroppinn að hann sé búinn að gleyma því upphlaupi sem hér varð þegar frumvarpið var lagt fram. (Utanrrh.: Það skemmti mér.)