138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:08]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég sá undir iljarnar á hæstv. utanríkisráðherra um leið og hann heyrði mig nefndan á nafn. Ég vona að það sé ekki þess vegna, og að hann verði hér til að svara fyrir það flýtiverk ríkisstjórnarflokkanna sem þetta frumvarp er. Ég ætla ekki að hafa um það ýkjamörg orð og helst ekki ræða það á einhverjum flokkspólitískum nótum eins og umræðan hefur að megninu til verið í dag. Það er greinilegt að þetta er samið í flýti og það er gert, að mér virðist, fyrst og fremst til þess að hægt sé að haka við einhvern ákveðinn lista verkefna sem hæstv. forsætisráðherra hugnast að klára sem fyrst. Þetta varð að hálfu frumvarpi í meðferð allsherjarnefndar vegna þess að fulltrúar Vinstri grænna voru einfaldlega á móti atvinnuvegaráðuneytinu af pólitískum ástæðum vegna hræðslu við ESB-aðlögun. Þar af leiðandi gengur það ekki einu sinni hálfa leið í því sem því var upprunalega ætlað.

Frumvarpið er í sjálfu sér og hugmyndin á bak við það ekki slæm. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að sníða stjórnsýslu sinni stakk eftir vexti, hún sé of stór og of svifasein og það eigi að sameina ráðuneyti og reyna að fækka starfsfólki Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins. Stjórnsýslan sem slík fær útreið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þó að sá hluti hennar sem verið er að fjalla um í þessu frumvarpi falli ekki sérstaklega þar undir má gera ráð fyrir því að úr því að ráðið er í hana á sömu forsendum og í þann hluta stjórnsýslunnar sem fær útreið í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sé staðan e.t.v. ekkert betri í þessum ráðuneytum og stofnunum, þ.e. það er búið að ráða í þessar stöður á flokkspólitískum forsendum í áratugi og þær valda ekki hlutverki sínu hæfnislega séð. Því þarf að taka á. Það er aðalvandamálið. Vandamálið er ekki hvort ráðuneytin eru níu eða tíu eða sjö eða ellefu. Það þarf að ráðast í að uppræta þá hugsun í stjórnsýslunni að hún starfi fyrst og fremst í þágu stjórnmálaflokka en ekki í þágu almennings. Það er helsti meinbugurinn og þetta frumvarp gerir ekkert til þess að taka á því.

Hér er í gangi þingmannanefnd sem vinnur myrkranna á milli og hefur gert í nokkrar vikur nánast við að vinna úr því sem stendur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar á meðal eru kaflar um Stjórnarráð Íslands og stjórnsýsluna. Einhverra hluta vegna má ekki bíða eftir þeim niðurstöðum. Það er með þetta eins og fjármál flokkanna. Ég held að menn ætli að hespa af einhverju frumvarpi í snarhasti og segja sem svo á næsta ári: Við gerðum þetta í fyrra, það er óþarfi að vera að endurskipuleggja stjórnsýsluna næstu árin. Menn eru að koma sér fyrir horn með einhverju flýtiverki.

Það sem þarf að gera er að búa til nýja grunnteikningu af Stjórnarráðinu. Það er fyrsta skrefið að nýrri stjórnsýslu. Teikna þarf upp hvernig Stjórnarráðið hentar íslensku samfélagi og þeim málum sem það þarf að takast á við. Síðan á að smíða inn í það hvaða ráðuneyti við þurfum og hvað þarf marga í hvert ráðuneyti og hvernig hagkvæmast er að reka þau ráðuneyti. Það var gefin út skýrsla hér í bæ, herra forseti, Skýrsla nefndar um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands. Fyrri hluti. Fyrri hluti skýrslu um stjórnsýsluúttekt er því komin. Þar er fjallað með mikilvægum hætti um mörg þau atriði sem þarf að takast á við. Þetta er eingöngu fyrri hluti af tveimur og þar er verið að fjalla um þá hluti sem raunverulega þarf að gera. Þar er ekki verið að fjalla um það sem þetta frumvarp gerir, þ.e. einfaldar nafnabreytingar á ráðuneytum og að slá saman ráðuneytum, heldur er í þessari skýrslu upphafið að því að leggja drög að því hvernig ný stjórnsýsla á að vera.

Ég starfaði sjálfur í íslensku stjórnsýslunni í um áratug og ég get vottað um það að víða í stjórnsýslunni er mjög hæft fólk að störfum og fullt vilja til að gera góða hluti en það er undir hælnum á flokkspólitískum stjórnendum. Það er undir hælnum á flokkspólitísku kerfi. Því er skipað að þegja yfir mikilvægum málum sem snerta almannahag af því að það hentar ekki þeim stjórnmálamönnum sem eru við völd hverju sinni. Ég hef sjálfur orðið vitni að þessu og þetta er ólíðandi ástand. Nýjasta dæmið um þetta er einfaldlega það algera klúður sem fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra flæktist í varðandi gengistryggðu lánin og þau lögfræðiálit sem unnin voru í stjórnsýslunni. Það hvarflaði ekki að mönnum að huga að almannahag, hvað þá heldur að gera eitthvað í því, eins og t.d. að stíga fram og segja að almenningur þyrfti ekki endilega að hafa svona miklar áhyggjur af þessum málum í bili heldur væru komin raunveruleg tól til að gera þeim kleift að semja af meiri styrkleika við lánveitendur sína en áður. Stjórnsýslan brást algerlega almenningi í því máli og það er ekkert sem segir mér að hún muni ekki halda áfram að gera það eftir að þetta frumvarp verður að lögum. Það vantar alla grundvallarþættina í þetta. Vissulega er verið að sameina marga þætti sem munu örugglega fara betur undir einum hatti og vissulega má gera ráð fyrir því að andstaða Sjálfstæðisflokksins sérstaklega við sameiningu heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins sé til komin vegna þess að í framhaldinu verður erfiðara að einkavæða heilbrigðiskerfið. Ég held að það sé grunnurinn að andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þetta.

Mín stutta vera á þingi hefur gert mér ljóst að það liggja einhvers konar flokkspólitískir hagsmunir að baki mestallri þeirri umræðu sem hér fer fram. Það sem þarf að gerast í íslenskri stjórnsýslu er að endurráða þarf í þrjú efstu lögin í stjórnsýslunni upp á nýtt. Það þarf að endurskipuleggja hana frá grunni. Það þarf að endurskipuleggja hana þannig að fólk sé ráðið inn í hana í því hlutverki að það sé að þjóna almenningi í landinu fyrst og fremst. Það er að starfa fyrir almenning og það á að þjóna almenningi í landinu. Það er ekki þarna til að starfa fyrir stjórnmálaflokka og þjóna stjórnmálaflokkum.

Ég hef reynslu frá því úti í Bandaríkjunum að starfa með fólki annars vegar úr bandaríska landbúnaðarráðuneytinu um þriggja mánaða skeið og hins vegar úr bandaríska viðskiptaráðuneytinu nokkrum árum síðar um nokkurra mánaða skeið. Ég verð að viðurkenna að þetta er eitthvert færasta fólk sem ég hef nokkurn tíma starfað með á ævinni, bandarískir bírókratar eins og þeir yrðu kallaðir á Íslandi. Það var allt annað að vinna með þessu fólki að þeim verkefnum sem það er að fást við heldur en ég upplifði sjálfur eftir að ég flutti heim til Íslands og fór að starfa í stjórnsýslunni. Fagmennskan og almannahagurinn var þar í fyrirrúmi, enda segja menn í Bandaríkjunum þegar þeir fara að vinna hjá ríkinu að þeir séu að fara í það sem þeir kalla „public service“, þeir eru að fara að vinna í almannaþjónustu. Þessari hugsun þarf að koma meira að í íslenskri stjórnsýslu en það er heldur ekki gert í þessu frumvarpi.

Ég vil hvetja til þess að menn bíði með þetta mál og taki það heildstætt þegar þingmannanefndin hefur skilað af sér áliti, þegar nefndin sem er að endurskoða lögin um Stjórnarráð Íslands hefur skilað af sér áliti og þegar Íslendingar sjálfir hafa lagt mat á það hvers konar stjórnsýslu þeir þurfa og hvað hún þarf að vera stór og í hverra þágu hún á að starfa. Það er það sem skiptir máli. Einfaldar nafnabreytingar þar sem ráðuneytum er slegið saman í illa rökstuddum aðgerðum eru einfaldlega ótímabærar og tímasóun að vera að eyða öllum þessum tíma í það, en úr því að ríkisstjórnin krefst þess að farið verði fram með málið neyðumst við til að svara því og taka frá annars dýrmætan tíma af þinginu í það.