138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt athygliverð. Hann velti fyrir sér afstöðu sjálfstæðismanna og hvers vegna við værum á móti þessu frumvarpi. Ég get bara talað fyrir sjálfan mig, það er fyrst og fremst vegna þeirra vinnubragða sem eru viðhöfð. Frumvarpið kemur fullbúið inn í nefndina, er kynnt í þingflokki Vinstri grænna — eins og hefur komið fram — án þess að það fái þar neina efnislega umræðu til breytingar heldur er bara niðurstaða hæstv. forsætisráðherra að þetta skuli vera svo. Það er fyrst og fremst á þeirri afstöðu sem ég byggi andstöðu mína við þetta frumvarp.

Ég held hins vegar að það hefði verið hægt að ná miklu meiri samstöðu um málið hefðu menn frá upphafi unnið öðruvísi. Það hefur sýnt sig að þegar menn fara með mál í þann farveg er það mun vænlegra til árangurs, til þess að ná meiri samstöðu. Ég tel mjög mikilvægt að breið pólitísk samstaða náist um þær breytingar sem eiga sér stað núna. Bendi ég þá sérstaklega á þegar hv. allsherjarnefnd tók stjórnlagaþingið til meðferðar og náði að lenda því í þokkalegri sátt við flesta.

Hv. þingmaður vitnaði í sambandi við stjórnsýsluna til þess að fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði legið á lögfræðiáliti. Að mínu viti er það stóralvarlegt mál vegna þess að nýju bankarnir voru reistir eftir að lögfræðiálit var unnið af virtri lögmannsstofu sem var staðfest af hálfu Seðlabankans og síðan í ráðuneytinu. Hann virðist hins vegar ekki hafa miðlað þeim upplýsingum til hæstv. fjármálaráðherra. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann telji þessa uppstokkun eiga sér stað vegna þess að hv. þingmaður hefur ásamt öðrum boðað það að við setningu þings mundi hann flytja (Forseti hringir.) vantrauststillögu á áðurnefndan hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.