138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt, það voru gefin fyrirheit um að hafa meira samráð við þingmenn, stjórnarandstöðuna o.fl. Það hefði náttúrlega verið betra líka, ég er alveg sammála því. Að nafninu til hefði það verið betra, það hefði kannski skilað meiri sátt um málið, en ég er samt ekki viss um að það hefði skilað betri niðurstöðu í frumvarpið. Ég held að endurskipulagning stjórnsýslunnar þurfi að eiga sér stað með öðrum hætti en að ráðuneytisfólk, hagsmunaaðilar eða þingmenn komi að því. Ég held að menn eigi einfaldlega að leita til sérfræðinga bæði innan lands og erlendis sem munu teikna upp nýja byggingu sem heitir Stjórnarráð Íslands fyrir 330.000 manna þjóðfélag. Hvað þarf það að gera til að halda hér gangverkinu í lagi af skynsemi og hvernig á að ráða fólk inn í það, hvað eiga að vera mörg ráðuneyti? Hvað þurfa þau að vera mörg?

Gríðarlegar tæknibreytingar verða á hverju einasta ári. Stjórnarráð þarf að vera mjög sveigjanlegt í starfsemi sinni vegna þeirra því að það er stöðugt hægt að gera miklu meira með færra starfsfólki í þessum tæknibreytingum, eða ætti að vera þannig.

Mörg mál snúa að því þegar verið er að endurskipuleggja Stjórnarráðið. Vænlegasta leiðin í þeim efnum er ekki sú að ráðuneytisfólk og þingmenn komi að því, þó að vissulega þurfi þeir að fá að fylgjast með, heldur er þetta fyrst og fremst fagleg nálgun sem þörf er á þegar stjórnarráðið er skipulagt, þ.e. ef menn vilja að það starfi fyrir almannahag fyrst og fremst en ekki í þágu pólitískra hagsmuna.