138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[18:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það kom fram í máli hv. þingmanns, sem hefur starfað töluvert á þingi og líka setið sem ráðherra og hefur mikla reynslu í stjórnsýslunni, að hennar skoðun væri sú að ráðuneytin væru oft og tíðum allt of veik og sagði jafnframt og tiltók það sérstaklega, jafnvel gagnvart stofnunum sem heyrðu undir ráðuneytin. Því langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns sem hefur mikla reynslu: Sér hv. þingmaður það fyrir sér að við það að sameina ráðuneytin, sem hv. þingmaður er greinilega er mjög hlynnt, yrði strúktúrinn tekinn eða færður úr sumum stofnunum inn í ráðuneytin til að styrkja ráðuneytin gagnvart stofnununum, þ.e. að starfsmenn yrðu færðir til í stofnunum, einhverjum undirstofnunum ráðuneytanna, til að styrkja ráðuneytin sem slík og færa þá meira eða að hluta til styrkara eftirlitskerfi inn í ráðuneytin gagnvart þeim stofnunum sem heyra undir þau?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann af því að hv. þingmaður hefur reynslu sem heilbrigðisráðherra og hefur ekki áhyggjur af stærð ráðuneytanna, og það eru ákveðin rök í því hjá hv. þingmanni að stærðin fari ekki eftir útgjaldahlið þó svo að maður sé dálítið hugsi yfir því að helmingur á fjárlögum íslenska ríkisins fari í eitt ráðuneyti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki neinar áhyggjur af því, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem eru uppi núna þegar mjög erfið og flókin mál eru til staðar í báðum ráðuneytum — það er fyrirhugaður niðurskurður í viðkvæmum málaflokkum — hvort hún hafi einhverjar áhyggjur af því að það sé gert með þeim hætti sem nú er gert.