138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[18:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef engar áhyggjur af því þó að eitt ráðuneyti fari með helminginn af útgjöldum ríkisins, og þó að það væru 70%, það er ekki það sem skiptir máli. Aðalatriðið er hvers eðlis sú þjónusta er og þau verkefni sem viðkomandi ráðuneyti er með, það er það sem skiptir máli. Menn vita allir hvað heilbrigðisþjónustan er og á að vera, eðli máls samkvæmt, dýr á hvern íbúa sem þarf á þeirri þjónustu að halda. Það er allt annars eðlis en verkefni sem samgönguráðuneytið er með, utanríkisráðuneytið o.s.frv. Þarna liggja peningarnir í þessari þjónustu, það eru heilbrigðismálin, félagsmálin og menntamálin, þarna liggja peningarnir. Ég hef ekki áhyggjur af því.

Ég tel að miklir möguleikar séu á góðum sparnaði með því að sameina heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið. Ég tel að mjög miklar líkur séu á því að það náist góður sparnaður. Það þarf reyndar, að mínu mati, að gera miklar kerfisbreytingar í þessum málaflokkum, m.a. í heilbrigðismálunum, og það höfum við farið yfir hér í umræðunni við önnur tækifæri, koma á valfrjálsu tilvísanakerfi o.s.frv. Hér getur fólk bara gengið beint af götunni til sérfræðings og sent reikninginn, 60%, á ríkið, skattgreiðendur. Þetta nær ekki nokkurri átt og tíðkast ekki í öðrum löndum. Ég hef ekki áhyggjur af því, virðulegur forseti, þó að þessi tvö ráðuneyti verði sameinuð.

Varðandi stofnanirnar tel ég að til greina geti komið að færa til starfsfólk úr undirstofnunum inn í ráðuneyti. Ég nefndi það að hlutfallslega væru sumar stofnanir mjög sterkar miðað við ráðuneyti og hægt er að nefna fjölmörg dæmi. Það er alltaf viðkvæmt að nefna dæmi af því að undirstofnanirnar telja sig allar vera undirmannaðar, allar fá allt of litla peninga o.s.frv. Ég get þó sem dæmi nefnt hér að Landspítalinn er gríðarlega sterk og öflug stofnun hlutfallslega miðað við ráðuneytið. Ég er ekkert að segja að það sé neitt hneyksli eða neitt slíkt, þar er unnið gríðarlega gott starf. (Forseti hringir.) En ég tek það sem dæmi um að erfitt getur reynst fyrir ráðuneyti að eiga við slíka stofnun. Það er mjög erfitt fyrir heilbrigðisráðuneytið að vera ekki í mjög góðu samstarfi við Landspítalann, ef ég orða það þannig.