138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[18:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður endaði í andsvari sínu, þ.e. gagnvart Landspítalanum.

Nú kom það skýrt fram í skýrslu frá Ríkisendurskoðun, þegar við vorum að fara yfir framkvæmd fjárlaga árið 2009 — allir hér í þingsal þekkja þau vandamál sem verið hafa á Landspítalanum, þ.e. um 6 milljarða sparnaðarkrafa sem var gerð á hann fyrir árið 2010. Helmingurinn af því var reyndar settur í frystihólf, halinn frystur. Ef stofnunin verður innan fjárlaga árið 2010 og 2011 hafa þeir einhverja von um að það fari í einhverja annars konar meðferð en gagnvart mörgum öðrum.

Hjá Ríkisendurskoðun kom fram að fram kæmi krafa frá heilbrigðisráðuneytinu um niðurskurð til Landspítalans og það vantaði að fylgja því eftir með pólitískum og faglegum fyrirmælum hvað ætlast væri til að stofnunin mundi gera, þ.e. að taka yrði ákveðnari ákvarðanir um það hvort menn ætluðu að leggja niður þjónustu eða hentu út svona með flötum niðurskurði.

Ég hræðist það dálítið, ég ætla ekki að fullyrða að það sé með þeim hætti, að við þessi ráðherraskipti núna verði endirinn sá að menn fari hugsanlega í flatan niðurskurð — þetta er það stórt og mikið ef menn ætla að fara að forgangsraða eins og hv. þingmaður benti hér á að kannski væri skynsamlegt að gera.

Ég vil líka rifja það upp hér að fyrir fjárlagagerðina árið 2010 var hæstv. ríkisstjórn enn að færa hjúkrunarheimilin á milli heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Hún kom með langan lista fyrst sem síðan var skorinn niður þannig að framtíðarsýnin og undirbúningurinn að þessu er svo sem ekki mikill.