138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[18:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hann var að lýsa þessu með Landspítalann og því sem Ríkisendurskoðun hefur greinilega verið að segja. Það er beðið um aðhald, og reyndar hefur tekist mjög vel til með aðhald upp á síðkastið hjá Landspítalanum og við eigum að hæla þeim fyrir það, upp á einhverja tölu, eitthvert fjármagn sem á að spara, og svo vantar að fylgja því eftir, eins og hv. þingmaður sagði, pólitískt og faglega.

Af hverju vantar að fylgja því eftir? Af hverju fylgir ráðuneytið því ekki nógu vel eftir? Það er af því að það er of veikt, það hefur ekki burði til þess. Það þarf að styrkja ráðuneytin faglega, þetta er bara eitt dæmi. Ég held að þetta sé svona meira eða minna í öllu kerfinu. Ráðuneytin þurfa að verða sterkari hlutfallslega miðað við stofnanirnar. Ég er ekki að segja að allar stofnanir séu svakalega sterkar og séu að valta yfir ráðuneytin, ég er ekki að segja það, virðulegur forseti. Ég tel hins vegar að það sé skekkja, kerfislæg skekkja, í þessum strúktúr hjá okkur, að of lítill þungi sé af vinnunni í ráðuneytum, of fátt fólk til að halda utan um vinnuna sem þarf að fara þar fram miðað við það sem er æskilegt. Ef einhvers staðar þarf að klípa af, af því að við höfum ekki peninga til að fjölga í ráðuneytunum og halda öllu hinu óbreyttu í stofnununum, mundi ég frekar vilja færa fjármagnið að einhverju leyti úr stofnununum yfir í ráðuneytin. Ég held að ráðuneytin verði að vera faglega sterk, annars er þetta bara slæm stjórnun.

Það er mitt mat að fækka eigi ráðuneytum, styrkja þau og efla, og ég held að það þurfi að setja meiri mannafla inn í ráðuneytin almennt, jafnvel á kostnað undirstofnana. Þetta er eitthvað sem ég tel að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að skoða. Við höfum verið með of faglega veik ráðuneyti hingað til.