138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um það að hvað varðar hið mikla tjón sem hefur hlotist af töfum Icesave-deilunnar deili ég ekki skoðunum með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þvert á móti hafa sparast tugir milljarða í vaxtakostnað fyrir íslenska þjóðarbúið sem hefur verið gríðarlega mikilvægt. Nú sjáum við að Evrópusambandið sjálft dregur í efa ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. Það hefur sjálft gefið út yfirlýsingar þess efnis, send hafa verið bréf erlendis til Brussel til að fá frekari skýringar en lítið komið til baka, en þessar yfirlýsingar standa.

Mín skoðun er sú að við eigum að vera óhrædd við að halda uppi málstað Íslands í þessu máli og ekki tala hann niður, þvert á móti. Þetta er í ákveðnu ferli núna, þetta er í ákveðnu samningaferli og við eigum að halda því áfram, sjá hvað kemur út úr því en það á ekki að vera undir svipuhöggum Evrópusambandsins. (MÁ: Hver er málstaður Íslands?)