138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Ástæðan er vitanlega frammíkall hv. þm. Marðar Árnasonar þegar hann spurði: Hver er málstaður Íslands?

Ef þeir sem eru að reka málið fyrir Íslands hönd, ríkisstjórnin, fjármálaráðherra, forsætisráðherra og aðrir, vita ekki hver málstaður Íslands er er illa komið fyrir okkur. Ég get ekki skilið frammíkall hv. þingmanns öðruvísi en að hann endurspegli þá skoðun sem er í Stjórnarráðinu þessa dagana.

Það er alveg ljóst að í gegnum allar þessar viðræður og allt þetta ferli hefur verið reynt að beita þessa þjóð sem Ísland er kúgunum til að ná fram ákveðinni niðurstöðu og það af hálfu stórra ríkja innan Evrópusambandsins sem beita Evrópusambandinu og öllu öðru fyrir sig til að reyna að fá okkur til að borga eitthvað sem okkur ber ekki sem þjóð að gera. Þetta eru einkaskuldir einkafyrirtækis. Við megum ekki gleyma því.

Hver er málstaður Íslands? Hann er vitanlega sá að við höfum uppfyllt það sem okkur ber. Við eigum að halda því til streitu og ég verð að segja að ég lýsi mig algjörlega sammála þeim orðum sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir flutti áðan. Það er ekki hægt áðan.

Frú forseti. Ef það verður samið um Icesave, ef það kemur einhver samningur einhvern tímann, hvað ætti þá að gera við hann? Við ættum að velta því fyrir okkur. Hvað ætlum við að gera við hann? Hlýtur hann ekki að fara í þjóðaratkvæði eins og sá samningur sem var hafnað? Er ekki rétta ferlið að þjóðin fái að klára þetta mál fyrst hún kaus að setja það í þann farveg sem það er í? Ég held að við hljótum að fara að velta alvarlega fyrir okkur hvort staðan sé ekki sú. Mín skoðun er að það eigi að vera þannig. Þjóðin tók þá ákvörðun að fella samning sem var lagður fyrir hana þannig að hún hlýtur að þurfa að fá að setja álit sitt á næsta samningi.