138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn sem er fyllilega réttmæt. Hún snýst um starfsemi gagnavers Verne Holdings á Suðurnesjum. Það er hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að ég lét þess getið þegar við vorum að afgreiða fjárfestingarsamninginn til fyrirtækisins í vor að það væri þessi þrándur í götu eða þessi fyrirstaða sem þyrfti að ryðja úr vegi til að starfsemin gæti hafist.

Ég vil reyndar árétta að þetta sem lýtur að vsk-málunum er viðfangsefni sem önnur gagnaver í samfélaginu hafa minnst á sem helsta þröskuldinn í vegi fyrir því að þessi iðnaður geti vaxið og orðið öflugur í landinu. Það er rétt að ég fari nokkrum orðum um það hvað þetta mál snýst um. Það lýtur að því að menn hafa komist að því að við stöndumst ekki samjöfnuð við gagnaver innan Evrópusambandsins varðandi virðisaukaskattsmeðferð á innflutningi á búnaði, þessum netþjónum sem eru nauðsynlegir til starfseminnar, og reyndar ekki varðandi sölu á gagnaversþjónustunni heldur.

Þegar búnaður til notkunar í gagnaverum er fluttur frá einu Evrópusambandslandi til annars er ekki lagður virðisaukaskattur á þann flutning þar sem ekki er um að ræða innflutning heldur frjálst flæði vöru. Ef hins vegar sami búnaður er fluttur í gagnaver á Íslandi er lagður á fullur virðisaukaskattur sem ekki fæst endurgreiddur ef eigandi búnaðarins er ekki með fasta starfsstöð eða virðisaukaskattsskyldur hér á landi. Þarna liggur hundurinn grafinn. Þetta er viðfangsefni sem fjármálaráðuneytið er með á borðinu og viðræður standa yfir við iðnaðarráðuneytið um lausn á þessu. Nýleg samtök íslenskra gagnaversfyrirtækja hafa gefið út þá yfirlýsingu að þetta þurfi að leysa til að þessi iðnaður komist á legg.

Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að þetta verkefni hefur (Forseti hringir.) tekið of langan tíma. Ég skora á fjármálaráðuneytið að leysa þetta hið fyrsta svo þessi öfluga grein til framtíðar (Forseti hringir.) fái þrifist í landinu.