138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það kemur mér satt að segja afskaplega mikið á óvart að það skuli koma hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni á óvart að gerðar hafi verið breytingar í ríkisstjórn vegna þess að spekúlasjónir um það höfðu átt sér stað í fjölmiðlum með nokkrum aðdraganda. Meginástæðan er að sjálfsögðu að ásetningur ríkisstjórnarflokkanna var að ráðast í breytingar á Stjórnarráðinu, stokka upp í stjórnsýslunni, ná fram meiri hagræðingu og sameina stofnanir, m.a. ráðuneyti, og fækka ráðherrum. Það er það sem var samið um við myndun þessarar ríkisstjórnar og stendur í stjórnarsáttmála hennar.

Þessi tímasetning var valin nú í aðdraganda þess að þingið kæmi saman. Við töldum heppilegt að gera vissar breytingar á ríkisstjórninni á þessum tímapunkti, færa m.a. ráðuneyti á milli stjórnarflokkanna, eins og gert var og það kallar eðlilega á uppstokkun. Það kemur alltaf maður í manns stað. Það var m.a. það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir lét hafa eftir sér í téðu viðtali. (GÞÞ: Er það satt …?) Ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hljóta að skipa mönnum til verka, hvort sem það er í ríkisstjórninni sjálfri eða í öðrum mikilvægum verkefnum sem þarf að vinna á vettvangi stjórnmálanna, m.a. í þinginu, með þeim hætti sem hún telur þjóna best þeim mikilvægu verkefnum sem hún er að ráðast í á hverjum tíma. (GÞÞ: Er það satt …?) Það er fullt af mikilvægum verkefnum fyrir stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar, ekki bara í ríkisstjórninni sjálfri heldur líka á vettvangi Alþingis, og við skipum fólki til verka eins og við teljum hentugast hverju sinni og þurfum ekki að eiga það undir stjórnarandstöðunni (Gripið fram í.) eða hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Við teljum að með þeirri skipan sem nú hefur verið komið á í ríkisstjórninni (Gripið fram í: Æ, …) hafi ríkisstjórnin verið styrkt (GÞÞ: Alveg satt?) [Hlátur í þingsal.] og sé vel undir það búin að takast á við þau verkefni sem bíða á næstu vikum og mánuðum.