138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vegna ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan er að segja frá því að með frammíkalli mínu um málstað Íslands var ég ekki að endurspegla eitt eða neitt, nema þá áleitnar spurningar úr þjóðarsálardjúpinu, heldur að biðja menn að fara varlega með orð. Það getur annars vegar kviknað í orðum og hins vegar getur vöknað í púðri þeirra eins og við þekkjum. Málstaður Íslands, segja menn, eins og það standi í stjórnarskrá eða sé í Mósebókunum, en hver er málstaður Íslands? Við skulum hugleiða hann.

Vissulega er málstaður Íslands í Icesave-deilunni að sleppa eins „billega“ út úr henni og hægt er, að reyna með öllu móti að þurfa að borga sem minnst. En það er líka málstaður Íslands að Icesave-deilan tefji ekki endurreisnina eins og hún gerir núna þrátt fyrir orð hv. formanns viðskiptanefndar (Gripið fram í.) sem hann þarf að rökstyðja betur. Það er líka málstaður Íslands (Gripið fram í.) að umheiminum verði það ljóst að hér býr stolt þjóð en líka ábyrg þjóð, þjóð sem heldur fast á hagsmunum sínum og þeirra kynslóða sem á eftir koma (Gripið fram í: Ekki …) en er líka annt um þann orðstír að hún standi við skuldbindingar sínar. [Kliður í þingsal.]