138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu stendur Ísland við skuldbindingar sínar. Það höfum við alltaf gert og það ætlum við okkur að gera, að sjálfsögðu. Það er mjög undarlegt ef túlka má orð þingmannsins með þeim hætti að einhver hafi sagt að við ætlum ekki að gera það. En hverjar eru þessar skuldbindingar? Hverjar eru skuldbindingar Íslands sem þjóðar í þessu máli? Það er það sem við erum búin að vera að ræða hér og það sem þjóðin sagði í rauninni í kosningum er að hún var ósátt við þann samning sem var lagður fyrir sem skuldbinding Íslands.

Ef hægt er að ná samkomulagi um þetta sem er ásættanlegt fyrir Ísland og fyrir íslenska þjóð er það að sjálfsögðu betra. En af hverju í ósköpunum eru menn þá hræddir við að ræða þá leið sem hefur verið nefnd dómstólaleiðin og segja hana þá alverstu? Hvað eftir annað upp á síðkastið hefur komið í ljós að staða okkar og það sem við höfum haldið fram er rétt og er búið að vera að styrkjast. Hvers vegna í ósköpunum eigum við þá ekki að halda því á lofti? Ég hef spurt mikið að þessu undanfarið: Hvers vegna í ósköpunum stíga stjórnvöld ekki fram, hvers vegna stíga ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki harðar fram og segja: Hér eru komin gögn sem sýna það og sanna að við gerðum þetta rétt? (VigH: Vanhæf ríkisstjórn.) Af hverju er það ekki gert?

Hér hefur verið sagt að ef dómur verður kveðinn upp í þessu máli og hann fellur Íslandi í óhag, sem flestir málsmetandi menn á Íslandi benda á að sé harla ólíklegt, munum við þurfa að standa skil á því sem kemur fram í þeim dómi. Að sjálfsögðu munum við þurfa að gera það. En við erum þá búin að reyna að sækja rétt okkar með skýrum hætti ef af því verður. Það er ekki útséð um að samningaleiðin verði fær í þessu máli og ég ítreka (Forseti hringir.) það sem ég sagði áðan, ég held að það sé rétt að velta því upp hvort rétt sé að sá samningur fari sömu leið og sá fyrri gerði.