138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði skilið hv. þingmann þannig, a.m.k. í fyrri tölvupósti sem ég fékk frá honum, að meiningin væri að ræða þátttöku lífeyrissjóða almennt í atvinnurekstrinum og það er mjög gilt umræðuefni en hv. þingmaður gerði aðallega að umtalsefni ein tiltekin kaup Framtakssjóðsins nú á dögunum.

Það er svo með lífeyrissjóðina að þeir starfa samkvæmt lögum sem setja þeim strangar skorður um það hvernig þeir skuli ávaxta fé sjóðfélaganna, dreifa áhættu, og almennt held ég að menn hafi talið þau lög standa fyrir sínu. Hitt er augljóst mál að lífeyrissjóðir sem velja þá leið að setja peninga í blöndu af ríkisskuldabréfum og slíkum pappírum í hlutafé í fyrirtækjum og geyma eignir sínar að hluta til erlendis um leið og þeir dreifa með slíku áhættunni er hún til staðar. Almennt talið væri einfaldasta leiðin að lífeyrissjóðir ættu allt sitt fé í pappírum með ríkisábyrgðum en á slíku var tæpast kostur á þeim árum sem ríkið var í minnstri þörf fyrir slíkt og auðvitað urðu lífeyrissjóðirnir fyrir tjóni eins og fjölmargir aðrir þegar allt hrundi hér haustið 2008.

Þó var það ekki verra en svo að lífeyrissjóðirnir hafa á nýjan leik náð u.þ.b. sínum fyrri styrk, og eigið fé þeirra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er aftur nálægt þeim slóðum sem það var á þegar það var hæst 2007. Þeir stofnuðu sinn Framtakssjóð, 16 lífeyrissjóðir saman. Þeir hafa sett honum skilmála og reglur sem ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér og eftir atvikum sýnist mér að þar eigi að vanda til verka.

Markmið með starfsemi sjóðsins er einfalt, það er eins og þar segir í tölulið 3.2, með leyfi forseta:

„Hlutverk Framtakssjóðs Íslands slhf.“ — þ.e. samlagshlutafélagsins — „er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins.“ Þeir hyggjast „fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll“.

Ég á ekki í neinum vandræðum með að fagna því að lífeyrissjóðirnir að þessu leyti og sameiginlegir sjóðir þar sem áhættunni er dreift leggi sitt af mörkum við endurreisn í íslensku atvinnulífi. Ég held að menn verði þá líka að velta fyrir sér hvaðan fjármunir ættu að koma eða væru líklegir til að koma í slíkum tilvikum ef lífeyrissjóðirnir sætu t.d. algjörlega hjá. Það þýðir á hinn bóginn, að sjálfsögðu, ekki að framganga þeirra sé hafin yfir gagnrýni, hvort sem heldur er í einstökum tilvikum eða hvað aðferðafræði og annað snertir. Ég þekki ekki hversu nákvæmlega allt það er komið á laggirnar sem hér á að verða samkvæmt samþykktum sjóðsins. Þar á m.a. að starfa ráðgjafaráð og það á að fara í einu og öllu eftir bestu verklagsreglum, leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja og reglum Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins o.s.frv. Höfundar þessa ætla sér a.m.k. greinilega að reyna að vanda til verka eins og kostur er.

Lífeyrissjóðirnir hafa mikla fjárfestingargetu en kannski er nær við þessar aðstæður að tala um fjárfestingarþörf þeirra því að þeir þurfa að koma í ávöxtun á hverju ári í kringum 100 milljörðum króna og við þekkjum við hvaða aðstæður það er nú gert. (Gripið fram í.) Þar af leiðandi held ég, m.a. í ljósi þess að ríki og tengdum aðilum gengur mjög vel að fjármagna sig og endurfjármagna skuldir sínar á innlendum fjármálamarkaði, að viðkomandi aðilar eigi ekki í neinum vandræðum með það. Ávöxtunarkrafan er líka á hraðri niðurleið og erfitt að mæla gegn því sérstaklega að lífeyrissjóðirnir leggi sitt af mörkum til endurreisnar atvinnulífsins eins og þeir gera. Lífeyrissjóðirnir koma ekki til með að verða framtíðareigendur þessara fyrirtækja, Framtakssjóðnum er ætlað að starfa í 10 ár og jafnvel hefja sölu á einhverjum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn setur nú fjármagn inn í strax að þremur árum liðnum eða svo þegar aðstæður eru orðnar hagstæðari.

Ég á í engum vandræðum með að gleðjast yfir því að þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, eins og stærsta flugfélag landsins, njóti nú góðs af því að vera m.a. komið með lífeyrissjóði sem hluta af kjölfestueigendabaklandi. Vonandi verður það því fyrirtæki og öðrum í sambærilegri stöðu til góðs.

Hvað varðar verklagsreglur banka, eða bankans í þessu tilviki, liggja þær fyrir og það er Bankasýslunnar sem fer með eignarhaldið að hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt og sérstakrar nefndar sem Alþingi setti á fót með lögum sem á að fara ofan í saumana á því hvort bankarnir starfi samkvæmt þeim reglum sem þeir hafa lofast til að gera. Það eftirlitskerfi á að sjá um þá hlið málsins og það þýðir því miður ekki (Forseti hringir.) að beina spurningum til þess sem hér talar um þann þátt málsins því að mér er lögum samkvæmt bannað að skipta mér af því.