138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[11:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðið vor voru samþykkt hér á Alþingi lög um kyrrsetningu eigna. Við sjálfstæðismenn höfðum mikla fyrirvara við það mál, bentum á að það miklar valdheimildir væru gefnar að hægt væri að misnota þetta vald. Við röktum ítarlega söguna af sambærilegum lögum sem sett voru í Bandaríkjunum eftir kreppuna miklu. Þau þjónuðu nákvæmlega sama tilgangi og þessi lög. Þeim var síðan misbeitt allherfilega á hinu svokallaða McCarthy-tímabili. Við tókum jafnframt fram að við teldum að það fólk sem gæti beitt þessum lögum væri gott og gilt og að við værum ekki á neinn hátt að gefa í skyn að það mundi misbeita lögunum eða misnota þau, en vildum benda á þennan þátt sem við getum sagt að flokkist undir mannréttindi, vegna þess að með þessum lögum er hægt að ganga allverulega nærri fólki.

Við bentum jafnframt á að með því að beita lögunum væri hægt að skaða allherfilega þriðja aðila, t.d. ef þetta beinist gegn einstaklingi sem sætir einhvers konar rannsókn gæti það beinst gegn börnum og maka þar sem eignir yrðu hugsanlega kyrrsettar. Hvað um það, þetta varð að lögum. Þetta frumvarp varð að lögum síðasta vor og fyrsta málið sem lögin voru notuð í kom upp nokkru seinna, kom til framkvæmda. Þar var um að ræða forstjóra í stórfyrirtæki hér í bæ. Fyrirtækið átti í deilum við skattyfirvöld um hvernig ætti að meðhöndla greiðslu á virðisaukaskatti milli fyrirtækja í samstæðunni, þetta er samstæða sem samanstendur af mörgum fyrirtækjum. Deilan snerist um hvort greiða ætti virðisaukaskatt af þjónustu milli landa og annað slíkt. Þetta var bara svona klassísk deila á milli skattyfirvalda og þeirra sem skatturinn er lagður á.

Lögin sem samþykkt voru hér seinasta vor voru notuð til þess að kyrrsetja eignir þessa stjórnarmanns. Þessi stjórnarmaður var þá atvinnulaus og búinn að missa megnið af eignum sínum og lögin bitnuðu beint á þriðja aðila, sem voru börn og maki þessa manns, sem var kona. Þetta varð harmleikur fyrir þessa fjölskyldu. Gripið var til þess úrræðis að reyna að hnekkja kyrrsetningunni hjá dómara. Þann 21. júní 2010 kvað Hæstiréttur upp þann dóm að ekki væri hægt að beita þessum lögum á þennan hátt. Við máluðum hér svarta mynd sjálfstæðismenn, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, af því hvernig hægt væri að misbeita lögunum, þetta var ekki misnotkun en einhvers konar misbeiting. Það var gengið mjög hart fram með þessum lögum gegn einstaklingi sem var í stjórn fyrirtækis sem átti í deilum við skattyfirvöld. Þrátt fyrir að fyrirtækið byðist til að lögð yrði inn á geymslureikning upphæðin sem menn deildu um vildu skattyfirvöld kyrrsetja eignir þessa einstaklings. Mannréttindi þessa manns og maka þessa manns og barna þessa manns voru þannig skert, það var gengið á mannréttindi þeirra.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra mælt fyrir útvíkkun á lögunum þannig að ótvírætt sé að hægt sé að nota þau í svona deilum, deilum um staðgreiðslu opinberra gjalda, deilum um virðisaukaskattsbrot, getum við sagt, og um staðgreiðsluskatt á fjármagnstekjur. Nú er alveg ljóst að ef þessi lög öðlast gildi og ef þau hefðu verið í gildi síðasta sumar hefði umræddur stjórnarmaður í fyrirtæki sem átti í skattalegum deilum út af virðisaukaskatti sem snerist um greiðslu á milli fyrirtækja innan samstæðu — þá hefði þessi kyrrsetning gilt enn og Hæstiréttur hefði ekki haft grunn til að hafna henni.

Þetta er 1. umr. um málið. Því verður væntanlega vísað til efnahags- og skattanefndar þar sem við munum fjalla um það og vonandi sníða agnúa af því ef einhverjir eru. Ég mun halda áfram að halda uppi sömu sjónarmiðum sem ég var með hér síðasta vor og benda á mannréttindavinkilinn í málinu og benda á að þessi lagasetning getur fært framkvæmdarvaldinu lög sem hægt er að misnota og misbeita.