138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[11:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir góða greinargerð í málinu. Við höfðum það sem umfjöllunarskylt efni í vetur og gerðum hratt og vel að lögum hér fyrir páskaleyfi í góðu samstarfi við alla þingflokka. Ég þakka fyrir það góða samstarf og vænti góðs samstarfs um meðhöndlun á þessu máli sömuleiðis. Það má furðu gegna að ekki hafi fyrir margt löngu verið settar kyrrsetningarheimildir í skattalögum fyrir yfirvöld til að tryggja að menn geti ekki skotið eignum sem þeir hafa myndað með skattundanskotum undan yfirvöldum. Það er algerlega nauðsynlegt að skýrar og afdráttarlausar heimildir séu um það í lögum og ekki annað fyrir Alþingi að gera en að taka þeirri ábendingu Hæstaréttar frá því í sumar að þetta þurfi að festa í hverjum og einum lagabálki.

Um leið og ég fagna því að þessi umgjörð er með þessu máli enn frekar styrkt og efld og bætt er það auðvitað líka þannig að megintilgangur okkar með slíkri lagasetningu er að tryggja að ríkissjóður verði ekki af skatttekjum sem ríkissjóður með réttu á. Það er mikilvægt, eins og komið hefur fram í umræðunni, að meðalhófs sé gætt í framgöngu í málum af þessu tagi. Það þarf auðvitað að fara vel yfir það með hvaða hætti unnt sé í ýmsum álitamálum að tryggja að ríkissjóður fái það sem ríkissjóðs er án þess að gengið sé óhóflega langt í málarekstri. Einnig þarf að skoða með hvaða hætti farið er með hugsanlegar fésektir í slíkum málum enda þær kröfur nokkuð annars eðlis en skattkröfurnar sjálfar.

Ég vonast til að nefndarmenn muni á þessum stutta þingkafla sýna mér sem formanni efnahags- og skattanefndar þá lipurð að funda fljótt um málið og oft ef þurfa þykir. Við köllum til okkar góða sérfræðinga til að skoða ýmsar hliðar á málinu. Ég vona sannarlega að sami einhugur verði um að afgreiða þetta mál nú á þessu stutta septemberþingi eins og var hér rétt fyrir páska.