138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Nú kann að vera að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafi að einhverju leyti verið að beina orðum sínum til mín í lok ræðu sinnar. Ég tel alla vega tilefni til að bregðast við orðum hennar með nokkrum hætti.

Við breytingar á Stjórnarráðinu er æskilegt að ná sem víðtækastri samstöðu þannig að ekki sé verið að breyta ört heldur að sæmileg samfella sé í æðstu stjórn ríkisins. Það þjónar ákveðnum tilgangi. Það þjónar þeim tilgangi að stjórnsýslan nái að vera nokkuð stabíl, burt séð frá pólitískum sviptingum á hverjum tíma, burt séð frá ráðherrum sem koma og fara. Það á auðvitað að skila sér í faglegum vinnubrögðum innan stjórnsýslunnar sem stundum hafa sætt harðri gagnrýni að undanförnu. Auðvitað verður að vera til staðar ákveðinn sveigjanleiki en einhvern meðalveg verður að fara í þessu. En það er æskilegt að það sé pólitísk sátt þannig að við hver einustu stjórnarskipti sé ekki verið að stokka upp embættismannakerfið og stjórnkerfið. Farnar eru mismunandi leiðir í löndunum í kringum okkur en það er skoðun mín að það sé betra að í þessum efnum höldum við okkur við þá hefð sem kenna má í meginatriðum við Evrópu þar sem stjórnsýslan er tiltölulega sjálfstæð og á að vera fagleg og óháð pólitískum sviptivindum frekar en hafa stjórnsýslu eins og kannski þekkist í Bandaríkjunum þar sem öllum æðstu embættismönnum er skipt út við hver einustu stjórnarskipti, hvort sem er á landsvísu eða fylkjavísu. Þetta er skoðun sem við getum deilt um en snertir þetta mál kannski ekki nema að hluta til.

Það er æskilegt að ná pólitískri samstöðu. Við vekjum athygli á því að hennar hefur ekki verið leitað í þessu máli. Ef það er mat meiri hlutans að ekki sé ástæða til að gera það, eða það sé einfaldlega of langt á milli til að hægt sé að ná þeirri niðurstöðu, þá verður svo að vera. Engu að síður hefði verið æskilegt að leita eftir pólitískri samstöðu. Í öllum undirbúningi málsins var ekki um það að ræða að leitað væri eftir pólitískri samstöðu. Hins vegar var varpað fram hugmynd í hálfkæringi á síðustu stigum málsins í allsherjarnefnd sem auðvitað var ekki þess eðlis, þegar málið var komið inn í þingið og búið að vera í talsverðri umfjöllun, að ástæða væri til að ræða það frekar.

Það er rétt sem hefur komið fram að þær breytingar sem boðaðar eru með frumvarpinu eru þess eðlis að þær væri hægt að gera með forsetaúrskurði. Ef frumvarp hæstv. forsætisráðherra hefði litið út þá eins og það lítur út verði tillögur meiri hluta allsherjarnefndar samþykktar hefði verið hægt að afgreiða málið með þeim hætti. Frumvarpið eins og það var lagt fram var hins vegar þess eðlis að ekki var hægt að afgreiða það með forsetaúrskurði. Þar var um að ræða atriði sem þurfti að afgreiðast með lagabreytingu. En ef meiri hluti allsherjarnefndar nær fram því markmiði sínu að klippa burt helminginn af frumvarpinu þá hefur málið tekið ákveðinni eðlisbreytingu. Við skulum aðeins hafa þetta í huga. Til að málið passi inn í forsetaúrskurðarmódelið verða þær breytingar að eiga sér stað sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til og þá er málið auðvitað orðið töluvert öðruvísi en lagt var upp með. En það er ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið er það, og það er kjarninn í þeirri gagnrýni sem ég hef haldið fram og fulltrúar sjálfstæðismanna í þessari umræðu, að það skortir allan faglegan og vandaðan undirbúning að þessu máli. Við höfum marglýst því yfir að við teljum að full ástæða sé til að endurskoða skipan ráðuneyta og fyrirkomulag Stjórnarráðsins að öðru leyti. Við höfum alltaf tekið undir það. Við höfum aldrei hafnað því. Við höfum hins vegar lýst yfir að það væri forsenda að hægt væri að ná einhverjum árangri með slíkum breytingum, það væri forsenda fyrir því að slíkar breytingar væru vitrænar að búið væri að vinna undirbúningsvinnuna, að búið væri að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er til að hægt sé að taka réttar ákvarðanir í þessu sambandi. Það hefur ekki verið gert í þessu máli. Það er, eins og ítrekað hefur komið fram, tekin pólitísk ákvörðun um það við myndun þessarar ríkisstjórnar að sameina einhvern tíma á kjörtímabilinu tiltekin ráðuneyti. Það er ákveðin pólitísk stefnumörkun.

Þegar frumvarp er lagt fram á þingi er hins vegar hægt að gera þá kröfu að búið sé að útfæra þá stefnumörkun með einhverjum hætti, búið sé að vinna undirbúningsvinnuna, hina faglegu undirbúningsvinnu, að búið sé að framkvæma það mat sem þarf til að taka afstöðu til einstakra tillagna í þessu sambandi. Það er lágmarkskrafa. Og það er ekki lágmarkskrafa sem einungis er haldið fram af okkur sjálfstæðismönnum í þessari umræðu í einhverri illgirni, langt í frá. Það er sú krafa sem ríkisstjórnin segist gera til sjálfrar sín varðandi undirbúning og framsetningu lagafrumvarpa. Nú síðast 20. ágúst gaf ríkisstjórnin út fréttatilkynningu — ég segi ekki með lúðrablæstri en þó nokkurri viðhöfn og tilkynningu um að hún væri búin að samþykkja endurskoðaðar reglur um framsetningu stjórnarfrumvarpa. Það vill svo til að ég hef lesið þær reglur og ekkert af því sem þar stendur hefur verið haft í heiðri við undirbúning þessa frumvarps, ekki neitt. Það módel eða sá rammi sem þar er mótaður, það vinnulag sem þar er lagt upp með, hefur ekki verið viðhaft við gerð þessa frumvarps. Þeir mælikvarðar sem núverandi ríkisstjórn segist vilja leggja á lagafrumvörp falla engan veginn að þessu frumvarpi.

Við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd höfum bent á að í gildi hefur verið ágæt handbók frá 2007 sem pólitísk samstaða hefur verið um, a.m.k. í orði kveðnu, þar sem eru ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig standa eigi að undirbúningi svona mála. Það er eins og enginn sem kom að gerð frumvarpsins sem við erum að ræða hafi svo mikið sem lesið formálann að þeirri bók. Það bendir ekkert til þess. Þegar við bendum á þetta koma fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna og kveinka sér undan gagnrýninni, telja þetta ómálefnalegt, telja þetta málþóf en það eina sem við erum að gera er að benda á að sú ríkisstjórn sem hér situr hefur uppi fögur orð um hin og þessi efni, um ný vinnubrögð, um vönduð vinnubrögð, faglega stjórnsýslu, víðtækt samráð. Það vantar ekki fögru orðin en þegar til kastanna kemur stendur ekkert eftir.

Það eru bara innantóm fyrirheit og það er hlutverk stjórnarandstöðu á þingi að benda á þetta. Það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni, stöku sinnum a.m.k., að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum. Þessi ríkisstjórn hefur nefnilega skapað sér ákveðna sérstöðu. Það er eitt sem þessi ríkisstjórn er dálítið góð í, kannski bara eitt en hún er dálítið góð í því. Það er að skreyta sig með fögrum yfirlýsingum, skreyta sig með fögrum orðum, nota fín og falleg hugtök. En þegar til kastanna kemur er ekkert að marka það og þetta mál sýnir það svo glögglega.

Sagt hefur verið við okkur í stjórnarandstöðunni: Hverjar eru ykkar tillögur? Af hverju komið þið ekki með ykkar útfærslu á því hvernig þið viljið sjá Stjórnarráðið líta út? Við getum komið með almenn sjónarmið eins og gert er í þessu frumvarpi. Við getum slengt því fram að sameina eigi hitt og þetta ráðuneytið, færa eigi verkefni hér og þar á milli. En til þess að eitthvert vit sé í slíkum tillögum verður auðvitað að fara fram ákveðið mat, ákveðin undirbúningsvinna. Við bendum á það í nefndaráliti okkar, sjálfstæðismenn, að þegar menn vinna tillögur af þessu tagi þurfa menn að meta núverandi ástand. Menn þurfa að meta þörfina á breytingum og menn þurfa að meta hvaða breytingar eru líklegastar til að skila árangri. Menn þurfa að meta hvaða áhrif breytingarnar hafa, bæði innan Stjórnarráðsins og út í samfélagið. Við höfum líka leyft okkur að benda á, og fengið bágt fyrir, að það kunni að vera æskilegt að eiga samráð við einhverja aðila utan þrengsta kjarna ríkisstjórnarflokkanna þegar verið er að komast að niðurstöðu í svona málum. Við höfum bent á það. Við höfum bent á að svoleiðis geti orðið til að bæta mál. Ekkert af þessu er fyrir hendi í þessu máli.

Þegar við höldum þessari gagnrýni fram þá koma menn eins og hæstv. forsætisráðherra í gær og segja: Það er mín skoðun, af því að þetta mál er búið að vera svo lengi í umræðunni, að þetta hljóti að vera vel undirbúið og undirbúningurinn vandaður. Vandinn er bara sá að ekkert í frumvarpinu sjálfu, ekkert í greinargerð með frumvarpinu, bendir til þess að svo hafi verið. Ekki er vísað í nein gögn, ekki er vísað í neitt mat, ekki er vísað í neina faglega úttekt í greinargerð með frumvarpinu. Eina plaggið sem vísað er í er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Stefnuyfirlýsingin er ágæt fyrir þá sem styðja ríkisstjórnarflokkana en hefur harla lítið gildi sem faglegur grunnur undir gerð lagafrumvarpa. Hún hefur harla lítið gildi sem slík og hún hefur raunar harla lítið gildi fyrir okkur sem ekki styðjum ríkisstjórnina. En það er önnur saga.

Það er komið með þetta mál hér inn fullkomlega vanbúið og ekki með neinni sanngirni er hægt að gera þá kröfu að við í stjórnarandstöðunni, t.d. einstakir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd, vinnum þá vinnu sem ríkisstjórnin vanrækti að vinna í undirbúningi málsins. Ekki er með nokkurri sanngirni hægt að ætlast til þess. Við bendum hins vegar á að að okkar mati standist frumvarpið engar kröfur sem gera má til lagafrumvarpa. Þess vegna leggjum við til að málið verði einfaldlega tekið til baka og unnið almennilega og komið með það inn. Og við stöndum við þá skoðun okkar.

Varðandi þá galla sem eru á undirbúningi málsins, og hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin í heild ber ábyrgð á, er alveg ljóst að úr þeim verður ekki bætt á nokkrum fundum í hv. allsherjarnefnd þó að þar sé um að ræða ágæta og vel skipaða nefnd. Það er alveg ljóst. Það þarf að vinna slíka grunnvinnu í þessu máli að það verður eingöngu gert með því að vísa því til föðurhúsanna. Við óskum eindregið eftir því að ríkisstjórnin komi aftur inn í þingið með almennilega undirbyggt og útbúið frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu sem hefur það að markmiði að draga úr kostnaði, sem hefur það að markmiði að bæta stjórnsýsluna, sem hefur það að markmiði að tryggja að betur sé farið með almannafé í þessum efnum og um leið að stjórnsýslan skili meiri árangri. Við óskum eindregið eftir því að ríkisstjórnin geri það. Við getum hins vegar ekki stutt þetta mál eins og það lítur út vegna þess að hér er einungis um að ræða hálfunnið eða óunnið mál sem þyrfti miklu betri skoðun og miklu vandaðri undirbúning áður en það hlýtur endanlega afgreiðslu.