138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:53]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni að í þessari umferð er ekki verið að búa til atvinnuvegaráðuneyti. En eins og hann veit mætavel er það í farvatninu og mun gerast í byrjun næsta árs ef allt fer að óskum.

Ég held líka að skynsamlega sé að málum staðið við sameiningu þeirra ráðuneyta sem hér eru til umfjöllunar og stofnun nýrra ráðuneyta, velferðarráðuneytis og … (Gripið fram í: Innanríkis…) innanríkisráðuneytis, þakka þér fyrir. Sú sameining er hafin, þ.e. undirbúningur að henni er hafinn. Eins og þingmaðurinn veit mætavel er nýskipuðum ráðherrum ætlað að leiða þann undirbúning sem síðan tekur formlega gildi 1. janúar. Ég geri því ráð fyrir að nýskipaðir hæstv. ráðherrar muni þá fara af stað með samráðsferlið sem hv. þingmaður kallar eftir. (Gripið fram í.) Atvinnuvegaráðuneytið verður væntanlega skipað með sama hætti, þ.e. ráðherra verður settur yfir þau ráðuneyti sem ber að sameina, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytið, frá og með áramótum þannig að undirbúningur geti hafist. Þá verða litlu ráðuneytin sameinuð eins og hv. þingmaður kallaði eftir. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að byrjað sé á stóru ráðuneytunum — þau litlu verða sameinuð eftir áramótin. Þá verður til öflugt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þegar sú mynd er fullbúin held ég að við komumst nær fagmennsku í íslenskri stjórnsýslu en nú er viðhöfð. (Gripið fram í.)