138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kennslustundina í því hvernig beri að haga sér í þingsölum, hvað má segja og hvað má ekki segja, hvenær og klukkan hvað. Ég vil taka það fram að ég flutti einungis skilaboð hérna áðan um þessi mál. Það var frásögn mín af fundi í allsherjarnefnd í hádeginu um að þessum málum yrði vísað til allsherjarnefndar. Ég átti ekki frumkvæði að því.

Ég mótmæli hins vegar því sem hér kemur fram, að þetta mál hafi verið afgreitt í ósætti út úr nefndinni. Það var ekki afgreitt í ósætti út úr nefndinni, það var tekin lýðræðisleg ákvörðun. Það er alveg rétt að það var ekki samkomulag í nefndinni. Það er ekki alltaf samkomulag í þinginu. Það þýðir ekki að það sé ósætti, (Gripið fram í.) það eru mismunandi skoðanir og þegar að því kemur ræður afl atkvæða. Hv. þingmaður veit það vel. Það að hún sé ekki í meiri hluta, eða hennar fylgismenn, þýðir ekki að það sé eitthvert eilífðarósætti.

Ég lýsi því hér eins og ég lýsti áðan að ég held að sú sameining ráðuneyta sem hér er lögð fyrir leiði til góðs. Hv. þingmaður tók sjálfur fyrr í dag dæmi af Varnarmálastofnun sem liggur klárlega miklu betur við að koma í gagnið eftir að innanríkisráðuneytið verður komið á stofn.

Ég vil segja við hv. þingmann, fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, að ég held að þeir sem þurfa að leita til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis verði ekki verr settir að fara á einn stað en tvo. Það hefur einmitt mjög þvælst fyrir þeim sem þurfa að sækja slíka þjónustu (Forseti hringir.) að þurfa að leita á tvo staði.