138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er fínt að hlutirnir verði óhefðbundnir og ég tel t.d. (Gripið fram í: Það verður þá að vera …) sérstaklega nýtt að virðulegur forseti geri engar athugasemdir við það að menn fari í andsvör við aðra þingmenn en þá sem hafa verið í ræðustól. Ég met það sem svo að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafi verið að hita upp fyrir að fara í andsvar við þann sem hér stendur, en stór hluti af andsvari hennar við ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur gekk út á að gagnrýna það sem ég sagði.

Bara til að svara því að það sé svo miklu betra að fara á einn stað í staðinn fyrir tvo þegar núverandi ríkisstjórn sameinar heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneytið er bara kjörið að setja mennta- og menningarmálaráðuneytið þar undir líka. Við þekkjum að fólk fer oft á báða staðina og ef við höldum áfram að fara yfir þetta er kannski best að stofna bara eitt allsherjarráðuneyti þannig að aðilar þurfi ekki að sækja á marga staði.

Ef við hefðum áhuga á því að gera þetta almennilega mundum við nefnilega gera úttekt á þessum hlutum, úttekt á því hvar hlutirnir skarast og hvernig best væri að eiga við það. Oftar en ekki hefur þetta að gera með persónuleg samskipti, bæði embættismanna, innan ráðuneyta, milli ráðuneyta, milli stofnana, innan stofnana, og sömuleiðis persónuleg samskipti ráðherra. Það breytist ekki þótt menn hræri í stjórnkerfinu. Við þekkjum öll ótrúleg dæmi þess að verið er að tefja fyrir málum og þau hafa hreinlega verið sköðuð út af smákóngaveldi eins og oft hefur verið kallað.

Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir að taka upp hanskann fyrir mig, en það er rétt hjá henni að ég er algjörlega rólegur yfir því að hv. þm. Róbert Marshall sýni mér hroka í ræðustólnum. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt, sérstaklega þegar hann afhjúpar í kjölfarið eigin vanþekkingu í þeirri sömu ræðu. Ég ætla ekkert að fara að karpa hér við hv. þm. Róbert Marshall. Eina sem ég bið hv. þm. Róbert Marshall um er að senda þetta mál til heilbrigðisstéttanna, til þeirra aðila sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda. Það sama á við um félags- og tryggingamálaráðuneytið. Bara kurteislega fer ég fram á það. Þetta er ekki það sama og heilbrigðisstofnanirnar.

Mönnum geta orðið á mistök, það er bara ekkert að því. Úr því að enginn kemur hingað og ver þessa ákvörðun hljóta að hafa orðið hér pínleg mistök. Þetta fólk er með öflug samtök, flestar þessara 33 heilbrigðisstétta, og sömuleiðis það fólk sem þarf á þjónustunni að halda svo ég taki nú þann geirann, og kemur örugglega með sjónarmið og álit sem geta nýst okkur í þessari vinnu.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði að ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í stjórn væri ekkert gert af því að menn segðu að ekki væri hægt að gera þetta í tiltekinni röð o.s.frv. Við höfum bara lesið upp úr ykkar eigin frumvarpi um að sumarið yrði nýtt til samráðs. Árásirnar hafa nú ekki verið harðari en það að við höfum lesið orðrétt upp úr ykkar eigin frumvarpi. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að lesa upp úr frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að taka það nærri mér þegar hv. þingmaður finnur því allt til foráttu og kallar það ómálefnalegt — ég man ekki hvaða orð hv. þingmaður notaði, en á hv. þingmanni mátti skilja að það væri mjög óeðlilegt að menn ynnu með þessum hætti.

Umræðan um þetta mál hefur verið skammarlega lítil. Undirbúningurinn er fullkomlega ónógur og þetta er ekki til sóma. Þetta er ekki í anda þess sem við tölum oft um hér inni, ég tala nú ekki um á hátíðarstundum. Það er nauðsynlegt að breyta stjórnsýslunni. Ég er þeirrar skoðunar.

Það er svo auðvelt að gera mistök í þessu. Ég vona að eitthvað af þessu bjargist fyrir horn en það er rangt að byrja á þeim enda að raða ráðherrum og breyta síðan stjórnkerfinu eftir því. Við skulum byrja neðan frá. Hvernig eigum við að hafa þjónustuna? Við verðum að gera faglegar úttektir á því (Forseti hringir.) ef við ætlum að ná þeim árangri sem ég ætla okkur öllum að vilja ná.