138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir málefnalegt og gott innlegg. Ég vek athygli á því að ég hef haldið hér nokkrar ræður og þetta er í fyrsta skipti sem stjórnarliði kemur upp og spyr mig um rökstuðning fyrir einhverjum af þeim fullyrðingum sem ég set fram. Það þykir mér til fyrirmyndar og þannig eigum við að takast á hér eða ræða málin. Hv. þm. Ólafur Gunnarsson þekkir, út af öðrum störfum sínum, að það eru ekki orðin tóm að það borgar sig að hafa samráð, að það borgar sig að heyra sjónarmið aðila. Mér hefur alltaf fundist afskaplega mikilvægt að heyra sjónarmið þeirra aðila sem eiga samskipti við ráðuneyti.

Hv. þingmaður spyr mig af hverju ég hafi áhyggjur þarna. Ég efast ekki um að margt sem þarna kemur fram kæmi manni á óvart þó að maður þykist eitthvað hafa komið að þessum málaflokki. En ég tók nú í fyrstu ræðu minni sérstakt útlegg á því sem sá sem þekkir best til, mundi ég ætla, af Íslendingum fyrr og síðar, Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, benti á. Hún er, mér vitanlega, eini einstaklingurinn sem bæði hefur verið ráðherra og ráðuneytisstjóri og hún benti á hið augljósa að með stærri ráðuneytum muni völd ýmiss konar sérfræðinga, embættismanna og ráðuneytisstjóra aukast og erfitt yrði fyrir ráðherra að hafa yfirsýn yfir svo stóra málaflokka.

Þegar ég í ráðherratíð minni átti samstarf við erlenda ráðherra átti ég oft og tíðum samskipti við nokkra ráðherra. Einhverjir þeirra voru bara með forvarnir og annað slíkt á sinni könnu. Við erum með tiltölulega ungt stjórnkerfi, unga stjórnsýslu. Ég tel, svo að ég vitni aftur í það, afskaplega mikilvægt fyrir okkur að nálgast málin úr öfugri átt, þ.e. hvernig teljum við að stjórnkerfið geti best nýst þeirri þjónustu sem er til staðar í stað þess að byrja á toppnum, að ákveða ráðherrastólana og vinda þetta síðan einhvern veginn niður á við. Það held ég að sé röng leið.