138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. þingmanni hafi fundist að ég færi ekki nógu vel yfir þetta á tveimur mínútum, ég bað því um orðið á eftir. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta. Ég tek því fagnandi að hv. þingmaður komi með málefnalegar athugasemdir við mínar ræður. Við eigum það sameiginlegt, ég og hv. þingmaður, að vitum ekki hvað kemur út úr slíku umsagnarferli. Það er það eina sem við erum alveg sammála um. Við vitum ekkert hvaða sjónarmið koma þar fram. Það litla sem ég hef heyrt í aðilum, og er ég ekki búinn að fara yfir það allt saman, er að menn hafa ekki mikið rætt saman. Nóg annað hefur verið á könnu þessara stétta og ekki hefur gefist tækifæri til þess að skoða þennan þáttinn.

Ef við ræðum þessi mál út frá þessum forsendum, heilbrigðismálin og félags- og tryggingamálin, tel ég mjög æskilegt að við mundum styrkja stefnumótunarferlið í þessum ráðuneytum og í þessum málaflokkum. Ég spyr hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson: Telur hann að það verði auðveldara og einfaldara að vinna þá þætti með sameinuðu ráðuneyti? Hv. þingmaður þekkir heilbrigðisgeirann mjög vel. Það er mjög ólíkt því sem gerist í félagsgeiranum. Við þekkjum það líka að við erum með heilbrigðisráðuneyti sem er mikið rekstrarráðuneyti. Telur hv. þingmaður að vinnan sem hér liggur til grundvallar sé í átt að því marki að styrkja eftirlitshlutverk ráðuneytisins gagnvart stofnunum? Ef svo er, hvernig? Ég sé ekkert um það hér. Ég sé ekkert um það í þessum gögnum eða í þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Þetta eru nú bara tvær grundvallarspurningar. Ég held að ekki væri verra að ræða þær.