138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt, ég hef ekki nægilega þekkingu þegar kemur að heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneytinu og treysti bara Alþingi, öðrum þingmönnum og undirnefndum til að fara betur yfir þau mál. Varðandi atvinnuvegaráðuneytið hef ég góða þekkingu á því og skil þær áhyggjur sem menn hafa í grasrót landbúnaðar og sjávarútvegs, ekki vegna atvinnuvegaráðuneytisins heldur þessarar ESB-umsóknar sem er reyndar að þróast upp í aðlögunarferli. Ráðuneytið mun þurfa að verja miklum tíma í umsóknina, bæta við sig mikilli vinnu og styrkja stjórnsýsluna. Menn hafa áhyggjur af því máli.

Varðandi þá nefnd sem forsætisráðuneytið skipaði og vitnað hefur verið í hér er það ekkert launungarmál, og ég hef sagt það í mínum þingflokki, að mér finnst mjög óeðlilegt að þingmannanefndin hafi ekki fengið að klára sína vinnu og að verið sé að skipa nefndir til hliðar með þessum hætti. Þingmannanefndin sem skipuð var og átti að fara yfir þessa skýrslu átti m.a. að skila inn í þingið tillögum að breyttum starfsháttum og breytingum á lögum. Það er einmitt það sem við erum að fara að ræða að ég hygg alla næstu viku, þ.e. niðurstöður þessarar þingmannanefndar. Hver veit nema það verði þá eitthvað varðandi Stjórnarráðið eða varðandi þetta vinnulag sem ég er að nefna hér?