138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ákvað í þessari umræðu að halda mig bara við frumvarpið en ekki ræða t.d. Evrópumálin þó að maður gæti sagt margt um þau og hvaða tíma við tökum núna í að fara í þau mál á þessum tíma. Ég ætla að sleppa því.

Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um að þetta er algjörlega þvert á það sem við höfum lagt upp með. Við á Alþingi erum hér með þingmannanefnd, við erum sammála um að það þurfi að styrkja stöðu þingsins og þá setur hæstv. forsætisráðherra upp einkanefnd með sínu fólki og ryðst fram með einhverjar tillögur löngu áður en þingmannanefndin lýkur störfum. Þess á milli tala menn um mikilvægi þess að styrkja þingið og að þingið megi ekki láta framkvæmdarvaldið vaða yfir sig. Þetta frumvarp er algjört skólabókardæmi um það, það getur ekki verið skýrara, að framkvæmdarvaldið veður yfir þingið. Það er niðurlægjandi fyrir hv. þingmenn sem taka þátt í þessu að láta ganga svona yfir sig.

Ég held að mistök okkar þegar við höfum breytt stjórnkerfinu hafi verið að byrja á öfugum enda. Til hvers erum við með ráðuneyti, hvað eiga ráðuneyti að gera? Það er grundvallarspurningin. Síðan getum við tekið einstaka þætti og valið þeim stað þannig að kerfið verði sem skilvirkast. Ef við skoðum hvernig þetta verður í framkvæmd og ef við lesum greinargerðina verður ekki séð að menn geti náð fram þessum markmiðum nema með því að stórfjölga starfsmönnum í ráðuneytunum. Ég get farið betur yfir það á eftir.