138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki ganga alveg eins langt og hv. þingmaður sem sagði að það væri ekki heiðarlegt af mönnum að styðja málið eins og það kemur fram hér. (GÞÞ: Ég …) Það sem ég hef áhyggjur af, líka eftir þessa umræðu hér og kom inn á áðan, eru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins því að árið 2007 réðust þeir í stjórnarráðsbreytingar með sama hætti og hér er gert, án samráðs, án þess að þarfagreining færi fram og án þess að þetta væri unnið neðan frá eða leitað þverpólitískra lausna.

Ég vonast til þess að vinnubrögðin almennt breytist hér, þetta verði ekki þannig að öðrum megin við borðið séu þeir klárir í að gera þetta með þessum hætti, gagnrýnin komi frá stjórnarandstöðu og það skipti eiginlega engu máli hvaða flokkar skipi hana. Mín skoðun er sú að við breytingar á Stjórnarráðinu eigi að leita þverpólitískra lausna. Það var ekki gert þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd, það hefur heldur ekki verið gert núna og ég held að við eigum að vinna þetta mál áfram, það eigi að fara til þessara undirnefnda og fagnefnda, fá álit, taka það síðan til 3. umr. og sjá hvað kemur út úr því.

Ég ítreka líka miklar áhyggjur mínar af þingflokki Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.