138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég get byrjað á því að ítreka miklar áhyggjur mínar af þingflokki Sjálfstæðisflokksins og heilindum þingmannanna í því að vilja almennt breyta vinnubrögðum í þinginu en ekki einungis um stundarsakir vegna þess að flokkurinn er í stjórnarandstöðu. Ég held að bara einni spurningu hafi verið beint til mín vegna ræðu minnar og hún sneri að því hvort ég teldi þetta hluta af aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Ég tel svo ekki vera með beinum hætti, ég tel þetta frumvarp ekki hluta af aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Áhyggjur manna í sjávarútvegi og landbúnaði af þessu frumvarpi eru eðlilegar og einnig innan flokksráðs Vinstri grænna sem ályktaði um málið í janúar og taldi eðlilegt að taka þetta atvinnuvegaráðuneyti út vegna ESB-umsóknarinnar.

Menn hafa áhyggjur af því að þar sem ljóst er að þessir tveir málaflokkar, landbúnaður og sjávarútvegur, þurfa að taka mestum breytingum og taka mestan skell á sig ef við göngum í Evrópusambandið — sem ég hef ekki trú á að við gerum — veikist stjórnsýslan í þessum málaflokkum og vægi þeirra sjálfra sömuleiðis. Ég tel þetta ekki aðlögunarverkefni með beinum hætti. Bein aðlögunarverkefni eins og í landbúnaði eru t.d. þau að setja á fót greiðslustofnun í landbúnaði, byrja að undirbúa breytingar á styrkjakerfinu með það að markmiði að taka upp byggðastyrkjakerfi Evrópusambandsins. Þetta eru bein aðlögunarverkefni og þetta eru verkefni sem ég veit að menn höfðu í hyggju að yrðu hluti af þessum IPA-verkefnum en voru guðsblessunarlega slegin út af borðinu af núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.