138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:41]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í 2. umr. um frumvarp til nýrra skipulagslaga því eins og hv. þingmenn, bæði Kristján Þór Júlíusson og Ólafur Þór Gunnarsson, hafa nefnt er þetta orðið gamalt mál í þinginu og orðið mjög brýnt að við endurskoðum skipulagslög. Við vitum, bæði af þeim umsögnum sem nefndin fékk og öllum þeim fjölda gesta sem kom til okkar á fundi nefndarinnar, að það er orðið mjög brýnt fyrir sveitarfélögin að ný skipulagslög taki gildi.

Eins og aðrir hafa talað um var starfið í nefndinni sérlega gott og samstarfið einstaklega gott. Án þess að á nokkurn mann hátt sé hallað vil ég sérstaklega þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, ég held að það muni mjög mikið um að hafa í starfi eins og þessu mann eins og hann sem hefur svo langa reynslu af því að vinna að skipulagsmálum. Aðrir nefndarmenn hafa að sjálfsögðu líka lagt mikið af mörkum og ég held reyndar að nefndin sé sérlega vel skipuð til að takast á við nákvæmlega þetta verkefni eins og hún er skipuð í dag. Í henni eru margir með reynslu af sveitarstjórnarmálum og svo þekkja nokkrir aðrir vel til skipulagsmála út frá teóríunni og öðru því um líku.

Af því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vísaði í upphafi ræðu sinnar til umræðu um Stjórnarráðið vil ég koma inn á það núna bara örstutt að það er umhugsunarefni af hverju sveitarstjórnarmálin lentu á sínum tíma í samgönguráðuneytinu frekar en umhverfisráðuneytinu. Ég held reyndar að sveitarfélagamálunum sé vel fyrir komið í væntanlegu innanríkisráðuneyti, ég held að þau eigi vel heima þar, en ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei sjálf séð rökin fyrir því að samgöngumál og sveitarfélög séu spyrt saman eins og verið hefur undanfarin ár. Ég veit ekki hvort það endurspeglar einhverjar hugmyndir fólks um að verkefni kjörinna fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins séu fyrst og fremst samgöngumál, ég veit það ekki. Mér hefur alltaf þótt sveitarstjórnarmálin eiga betur heima með skipulagsmálum og þar af leiðandi heldur í umhverfisráðuneytinu en annars staðar. Þetta var aðeins utan dagskrár.

Eins og fram kemur í nefndaráliti allrar nefndarinnar eru gerðar nokkrar breytingartillögur. Um þær ríkir sátt að flestu leyti, eða öllu leyti má ég segja, en í framhaldi af því sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson talaði um áðan, menntun skipulagsstjóra, vil ég segja að ég er afar ánægð með að við höfum náð sátt um að gerð sé krafa um háskólamenntun. Ég hefði reyndar viljað ganga lengra og segja að skipulagsstjóri ætti að hafa háskólamenntun á sviði skipulagsmála, annaðhvort þá arkitekt eða jafnvel miklu heldur skipulagsfræðingur. Ég tel að skipulagsmálin séu svo flókin að skipulagsstjóri ríkisins eða forstöðumaður Skipulagsstofnunar verði að hafa fagþekkingu á þessu sviði til að geta rækt starf sitt þannig að vel sé.

Aðrir þingmenn hafa rætt um skipulagsmörk sveitarfélaga og ég tek undir að það þarf að huga vel að þeim. Þau skipulagsmörk sem nú eru í gildi samkvæmt lögum eru byggð á, held ég að ég megi segja, aldagamalli hefð og hefur allt of lítið verið horft til þess að endurskoða skipulagsmörk sveitarfélaga. Mér segir svo hugur að í framtíðinni verði kallað í ríkari mæli eftir ýmiss konar atvinnuuppbyggingu utan landsteina, úti á sjó, og frumvarp um kræklingarækt sem var í meðförum þingsins í fyrrahaust er eitt af mörgum dæmum um það. Bent hefur verið á að þegar væntanleg vatnatilskipun Evrópusambandsins verður innleidd hér á landi kunni að koma upp ýmiss konar flækjustig við innleiðingu hennar og framkvæmd þegar þar fara að togast á skipulagsvald sveitarfélaga og skipulagsvald stjórnvalda. Ýmis rök hníga að því að færa skipulagsvald sveitarfélaga út fyrir þessa 115 metra, þ.e. út fyrir netlögin eins og þau eru nú. Í nefndaráliti kemur reyndar fram, sem er vel, samkvæmt upplýsingum, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin fékk þær upplýsingar frá umhverfisráðuneyti að verið væri að fara í norrænt samstarf við að skoða reglur á þessu sviði. Þá væri búið að stofna nefnd á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem fulltrúi umhverfisráðuneytis ætti sæti í. Verkefni nefndarinnar væri m.a. að fara yfir þörf á löggjöf varðandi skipulagsmál á hafi og stefndi nefndin á að ljúka starfi sínu í lok þessa árs.“

Það er mjög gott og ég legg áherslu á að við höldum því til haga að skipulagsmörk sveitarfélaga verði færð lengra á haf út.

Stór breyting í þessu frumvarpi er landsskipulagið. Aðrir þingmenn hafa lýst ánægju sinni með það og ég tek undir það sjónarmið. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að hér verði tekið upp landsskipulag. Það verður auðvitað að hafa í huga að þetta fyrirhugaða landsskipulag, ef af verður, mun ekki lúta sömu reglum og önnur skipulagsstig, hvorki svæðisskipulag, aðalskipulag né deiliskipulag, heldur hefur í meðförum þingsins og væntanlega umræðunni allar götur frá 2002 verið einlægur vilji sveitarfélaga og ýmissa annarra að þetta verði meiri stefnumörkun en eiginlegt skipulagsstig enda heitir þetta samkvæmt 10. gr. frumvarpsins landsskipulagsstefna. Það er mjög skynsamlegt vegna þess að ég held að flestir þingmenn hér inni vilji virða sjálfsákvörðunarrétt og skipulagsrétt sveitarfélaga. Við tökum undir það í nefndaráliti og fögnum því.

Ef við hugsum til þess að hér á landi eru 77 sveitarfélög sem hvert um sig hefur sitt skipulagsvald með réttu er enn frekar mikilvægt að hér sé mörkuð stefna um landnotkun, enda er hugmyndin um landsskipulag fyrst og fremst hugmynd um landnotkun þar sem horft er vítt yfir sviðið. Í sjálfu sér er mjög sérkennilegt að við skulum ekki vera komin með landsskipulag nú þegar með öllum þessum litlu sveitarfélögum. Ef við horfum yfir okkar stóra land og okkar fámennu þjóð er óskynsamlegt að vera ekki með heildarsýn yfir landnotkun. Undanfarin ár erum við að sjálfsögðu búin að reka okkur á ýmiss konar hagsmunaárekstra í landnotkun, og þeim árekstrum á örugglega eftir að fjölga.

Við ræddum í gær um landnýtingaráform í ferðaþjónustu á hálendinu og hún er að sjálfsögðu mikilvægt innlegg í umræðuna um landsskipulagsstefnu. Síðan segir í greinargerð með frumvarpinu að megintilgangur landsskipulagsstefnu sé að setja fram stefnu um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum og í 10. gr. frumvarpsins um landsskipulag segir einnig, með leyfi frú forseta:

„Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og er hún útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar …“

Ef við hugsum út í allar þessar áætlanir hins opinbera sem ég taldi hér upp og skipulagsáætlanir 77 sveitarfélaga sér hver maður í hendi sér að það verða hagsmunaárekstrar og það verður ákveðið kaos. Þess vegna ítreka ég nauðsyn þess að umhverfisráðherra leggi í upphafi kjörtímabils, eða eigi síðar en tveimur árum eftir að ráðherra kemur til valda, fram drög að landsskipulagsstefnu. 77 skipulagsáætlanir sveitarfélaga eða aðalskipulög fyrir utan allar aðrar áætlanir opinberra aðila þarf að samræma með einhverju móti og það þarf að setja leiðarljós um það hvert skuli haldið.

Þegar fyrsta stefna um landsskipulag verður unnin af nefnd sem sérstaklega verður skipuð þar um ef frumvarpið nær fram að ganga mun sú nefnd vitaskuld taka mið af fyrirliggjandi áætlunum bæði sveitarfélaga og stjórnvalda. Á einhverjum tímapunkti, og það er reynsla annarra þjóða, mun verklagið að sjálfsögðu snúast við að vissu marki, þ.e. sveitarfélögunum er gert eins og segir í frumvarpinu að taka mið af landsskipulaginu þannig að á einhverjum tímapunkti mun þetta snúast við frá því að landsskipulagið horfi fyrst og fremst til þess sem fyrir er. Menn munu við aðra áætlunargerð taka mið af landsskipulaginu.

Það er rétt að undirstrika að í þingsályktunartillögu um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt sem var lögð fram í fyrrahaust segir, með leyfi forseta:

„Með sóknaráætlun skal ríkisstjórnin samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu.“

Margir gætu haldið að þarna væri verið að nefna til sögunnar á tveimur stöðum sama hlutinn þannig að ég vil af þessu tilefni undirstrika að það er reginmunur á þeirri hugsun sem felst í landsskipulagsstefnu og sóknaráætlun. Landsskipulagsstefna er eins og ég sagði áðan stefna stjórnvalda um landnotkun; hvar frístundabyggðin getur verið, hvar þéttbýliskjarnarnir skulu styrktir, hvar stóru stofnbrautirnar skulu liggja o.s.frv. en sóknaráætlun felur í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins, þ.e. ef okkur lánast að leggja fram sóknaráætlun eins og lagt var upp með samkvæmt þessari þingsályktunartillögu og sem ég hef fulla trú á að verði, hef reyndar haft af því spurnir að það gæti orðið síðar í næsta mánuði, verða þar lögð fram fyrstu drög að sóknaráætlun sem er þá eins konar fjárfestingaráætlun sem byggir að verulegu leyti á væntanlegri landsskipulagsstefnu.

Þarna fetum við í fótspor annarra þjóða sem hafa svipaðan hátt á, þ.e. víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við hafa menn innleitt landsskipulagið og er ánægjulegt að við ætlum að stíga það skref núna.