138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að fá tækifæri til að koma hér upp og ræða aðeins frekar um Skipulagssjóðinn. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum ekki að leggja til breytingar á Skipulagssjóðnum í þessu frumvarpi. Hins vegar kom það oft til tals að annars vegar gæti Skipulagssjóðurinn tekið yfir ákveðin verkefni, sem ég kom inn á að hann gerði ekki samkvæmt lögum, og hins vegar, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, er einmitt misskipting í því hvernig sveitarfélög landsins fá greitt úr sjóðnum vegna þeirra framkvæmda sem þar fara fram. Satt best að segja er það þannig að þetta er ákveðin prósenta af kostnaði framkvæmdarinnar sem rennur í Skipulagssjóðinn og í þeim sveitarfélögum þar sem framkvæmdir eru miklar hafa þær tekjur sem sveitarfélögin hafa fengið, eða við skulum segja Skipulagssjóðurinn hefur fengið af framkvæmdum viðkomandi sveitarfélags, verið með þeim hætti að þegar uppbygging er fer þetta langt yfir 50%. Það er því rétt hjá hv. þingmanni að inn í sjóðinn hefur runnið fé frá þeim sveitarfélögum þar sem uppbygging er mikil.

En nú er það svo að það eru fleiri sveitarfélög en á Stór-Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri þar sem uppbygging hefur verið mikil. Í mörgum þeim sveitarfélögum hefur einmitt runnið fé frá framkvæmdum í viðkomandi sveitarfélagi inn í sjóðinn og þrátt fyrir að hafa sótt um að geta staðið við hlið annarra sveitarfélaga og fengið 50% endurgreitt hafa þau ekki fengið slíkt fram og hafa orðið að semja um greiðslur sem eru umtalsvert lægri en 50% af þeim tekjum sem koma af framkvæmdum í því sveitarfélagi. Þetta er tæknileg útfærsla en við getum verið sammála um að gæta þurfi á einhvern hátt meira jafnræðis á milli sveitarfélaga (Forseti hringir.) hvort sem þau eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða þar fyrir utan.