138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:30]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja um of umræðu um frumvarp til skipulagslaga. Þeirri yfirferð hafa verið gerð góð skil, m.a. í gær af formanni nefndarinnar sem fór mjög vel yfir frumvarpið og þær breytingartillögur sem umhverfisnefnd hefur gert við frumvarpið.

Eins og komið hefur fram hefur þetta frumvarp og frumvarp til mannvirkjagerðar og frumvarp um brunavarnir verið rætt hér á nokkrum þingum án þess að hljóta afgreiðslu. Nú var svo komið eftir langan undirbúning við frumvörpin að fara annaðhvort vel yfir málin og einhenda sér í að afgreiða þau á þessu þingi eða leggja upp í nýja vegferð. Það var a.m.k. mat nefndarmanna í hv. umhverfisnefnd. Verkið tókst þar sem í ljós kom að nefndarmenn voru allir sammála um að í raun og veru væri ekki svo djúpstæður ágreiningur um einstök mál eða atriði sem nefndin gæti ekki leyst á þeim tíma sem hún hafði til umráða.

Ég vil þakka formanni nefndarinnar og öllum nefndarmönnum fyrir að hafa lagt sig fram við þessa vinnu eftir að hafa farið vel yfir umsagnir, kallað til umsagnaraðila og gert þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Að sjálfsögðu eru þessir málaflokkar í stöðugri þróun og verða áfram. Með því að skipta málaflokkunum upp og hafa sérstök lög um skipulagsmál, önnur um mannvirki og þau þriðju um brunavarnir eru málaflokkarnir skýrari og einfaldara verður að breyta lögum í hverjum málaflokki héðan í frá. Auk þess leggur nefndin til, verði frumvarpið að lögum, að heildarendurskoðun fari fram á lögunum innan tveggja ára. Ég held að það sé mikilvægt því að þetta er það stór málaflokkur og mikilvægur að ég dreg í efa að ekki komi í ljós innan þessara tveggja ára að færa þurfi eitthvað til betri vegar og greiða úr þeim málum sem nefndin felur hæstv. umhverfisráðherra að vinna frekar með.

Hér hefur landsskipulagið verið nefnt nokkrum sinnum. Það er komið inn í frumvarpið og verður að lögum ef það verður afgreitt, en ég trúi ekki öðru en að svo verði núna á þessu þingi. Það þarf að finna landsskipulaginu góðan sess og þróa það áfram.

Svæðisskipulög eru þau form sem við höfum haft í lögum og unnið eftir um hríð. Allir eru sammála um að það fyrirkomulag sem nú er sé ekki nægilega skilvirkt, að sviðið sé ekki nægilega ábyrgt að því leyti að illa hefur gengið að ná fram afgreiðslu á svæðisskipulögum og hafi það gengið eftir hefur eftirfylgnin ekki verið nægilega markviss og svæðisskipulögin hafi í raun verið lögð til hliðar. Vinna verður áfram með svæðisskipulögin. Nefndin var sammála um að ekki ætti að skerða ákvörðunarrétt sveitarfélaganna því að þeirra væri skipulagsvaldið. Ég nefni þetta sem dæmi um mál og svið sem þarf að þróa áfram og tel augljóst að fara þurfi vel yfir málaflokkinn á næstu tveimur árum.

Það sem er nýtt í frumvarpinu er að tekin eru upp hverfaskipulög í eldri íbúðabyggðum í þéttbýli þar sem deiliskipulög hafa ekki verið unnin. Til fyrirmyndar er hægt að hafa fyrirkomulag sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og víðar, þ.e. að skipuleggja gróin hverfi með öðrum hætti en óbyggð svæði.

Hæstv. forseti. Ég nefni eingöngu fjögur atriði sem ég vil sérstaklega fagna og draga fram. Það eru breytingartillögur við 2. gr. frumvarpsins og eru skilgreiningarnar. Ég tel að skilgreiningarnar fjórar í frumvarpinu muni valda straumhvörfum í skipulagsmálum, þ.e. að í frumvarpið skuli aðgengi fyrir alla sérstaklega vera skilgreint. Aðgengi fyrir alla er skilgreint þannig í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þegar sjónarmið algildrar hönnunar eru höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.“

Hvað er algild hönnun? Þetta er nýyrði sem við tökum upp og er þýðing á hugtakinu „Design for All“ sem hefur verið í enskri tungu um nokkurn tíma, þ.e. að hanna byggingar, mannvirki, hluti, nytjahluti eða annað og að hafa í huga við alla hönnun að hluturinn, mannvirkin, aðgengið, umferðarmannvirkin séu aðgengileg og nýtanleg öllum. Oft og tíðum er ekki aukinn kostnaður af því. Þetta er önnur hugsun sem sett er í frumvarpið. Algild hönnun er sem sagt íslenskan á þessu hugtaki. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlaða sé þeirra þörf.“

Í frumvarpinu er líka skilgreining á landslagi og sjálfbærri þróun sem tekin er upp úr meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992. Með leyfi forseta:

„Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar.“

Sjálfbær þróun er slagorð í munni margra sem hefur mjög ólíka merkingu eftir því í hvaða tilgangi það er sett fram. Það kom fram í máli umsagnaraðila að innan ákveðinna geira væri talað um mildari útfærslu, stofnanaútfærslu, og síðan hina ýtrustu útfærslu sem væri þá út frá strangari umhverfissjónarmiðum. Skilgreiningin er sett fram þannig að ekki á að vera hægt að túlka hana á annan hátt en hér stendur.

Hæstv. forseti. Hér væri hægt að fara í marga liði. Ég fagna þeim breytingartillögum sem hafa verið unnar í nefndinni. Nefndin mun fara yfir nokkur atriði á milli 2. og 3. umr. Ég treysti því að hin frumvörpin komi fram strax á nýju þingi og að umhverfisnefnd verði jafnkappsöm við að ljúka þeim frumvörpum og þessu. Það tekst með jafngóðu samstarfi enda eru margir kunnáttumenn í nefndinni sem hafa komið að skipulagsmálum og þekkja þau því af eigin reynslu, bæði sveitarstjórnarmenn og aðrir.

Að svo mæltu óska ég þess að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi.