138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær kom fram í Morgunblaðinu að Bretar og Hollendingar hefðu í síðustu viku sýnt mikla óbilgirni í samningaviðræðum um lausn á Icesave-deilunni og að mikil óvissa væri um framhaldið. Fram undan er þriðja endurskoðun á efnahagsáætlun AGS sem gæti skýrt þessa óbilgirni Breta og Hollendinga.

Samningurinn við AGS átti að renna út 30. nóvember nk. en nú er búið að framlengja hann um níu mánuði vegna tilrauna Breta og Hollendinga til að beita Íslendinga þrýstingi í Icesave-deilunni. (Gripið fram í: Meintum.) Enn á ný megum við eiga von á því að Bretar og Hollendingar noti stjórnarsetu sína í AGS til að þrýsta á okkur Íslendinga að ganga að ýtrustu kröfum sínum.

Frú forseti. Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst sig andvígan því að ganga að ýtrustu kröfum Breta og Hollendinga velti ég fyrir mér hver stefna flokksins sé gagnvart AGS. Ég vil með öðrum orðum biðja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson sem á sæti í efnahags- og skattanefnd að upplýsa mig og aðra þingmenn um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til áframhaldandi samstarfs við AGS. Auk þess vil ég vita hvort hv. þingmaður sem jafnframt er hagfræðingur telji þörf á frekari lánveitingum frá AGS. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er nú kominn í þá stærð sem að var stefnt þegar við tókum lánin frá AGS og vinaþjóðunum en við eigum enn eftir að fá 300 milljarða af um 600 milljörðum.