138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Talað er um að menn tali mikið án þess að koma sér að efninu — margur heldur mig sig, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég skil reyndar ekki af hverju þingmaðurinn beinir ekki bara fyrirspurninni til hæstv. utanríkisráðherra úr því að þingmaðurinn er svona ánægður með svör hans í þessu máli. (Gripið fram í.) Af hverju spyr hann hann ekki í óundirbúnum fyrirspurnum? (Gripið fram í.) Ég vil benda (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] hv. þingmanni á að ég fór ágætlega yfir það í gær að ég teldi að með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á ríkisstjórn hefði ríkisstjórnin styrkt sig og þétt raðirnar. Sérstaklega með þeirri tilkynningu sem lesin var upp í upphafi þingfundar í dag, með inngöngu hv. þm. Þráins Bertelssonar í þingflokk Vinstri grænna, hefur ríkisstjórnin enn styrkt sig í sessi og er betur undir það búin að takast á við þau verkefni sem bíða okkar á komandi tíð.

Af því að þingmaðurinn spurði sérstaklega um fjárlögin tel ég að þær skipulagsbreytingar sem ákveðið hefur verið að ráðast í, m.a. með fækkun ráðuneyta og ráðherra, séu efnislega til þess fallnar að tryggja að við verðum með góð fjárlög fyrir árið 2011.

Ég upplifi það hins vegar líka þannig að hv. þingmanni er mikið í mun að eiga við mig orðastað undir liðnum um störf þingsins og hefur boðað að gera það áfram á föstudaginn þannig að ég hlakka bara til. (GÞÞ: Svarið …)