138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í gær skilaði starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða til sjávarútvegsráðherra skýrslu og vinnu sinni sem hefur staðið yfir í tæpt ár. Sú skýrsla er ansi viðamikil og vinnan sem þar fór fram hefur skilað miklum árangri ólíkt því sem hv. þm. Þór Saari hefur haldið hér fram.

Í stuttu máli er meginniðurstaðan sú að allir aðilar starfshópsins, að undanskildu Landssambandi íslenskra útvegsmanna, eru þeirrar skoðunar að í stjórnarskrá lýðveldisins verði skýrt kveðið á um það hver eigi þessa auðlind. Um það er þverpólitísk samstaða, jafnvel fulltrúi Hreyfingarinnar studdi þetta atriði málsins í nefndinni. Og við skulum ekki gleyma því að það er rétt rúmlega ár síðan tekist var á um þetta atriði í þessum sal þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók þingið í gíslingu rétt fyrir kosningarnar 2009 til að koma í veg fyrir þær breytingar á stjórnarskránni sem til stóð að gera varðandi þetta ákvæði. (Gripið fram í.) Þannig tóku sjálfstæðismenn þingið í gíslingu út af því máli. Þar hefur orðið viðhorfsbreyting, sem betur fer, þannig að um þetta er full samstaða.

Í öðru lagi er samhljóða niðurstaða starfshópsins, að undanskildum fulltrúa Hreyfingarinnar, að eigandi auðlindarinnar, þ.e. þjóðin, geti gert tímabundna afnota- eða nýtingarsamninga við þá sem vilja stunda fiskveiðar á Íslandi. Þeir samningar verða, eins og ég sagði, tímabundnir gegn ákveðnum skilyrðum, gegn gjaldi og meðferð afla svo eitt og annað sé til tekið.

Í þriðja lagi er starfshópurinn, að undanskildum fulltrúa Hreyfingarinnar, sammála því að opna kerfið frekar, byggðatengja aflaheimildir frekar en gert hefur verið, m.a. til að ná fram þeim markmiðum sem hafa verið í lögum um stjórn fiskveiða frá fyrsta degi um atvinnu- og byggðasjónarmið. Fulltrúi Hreyfingarinnar lagði hins vegar til að aflaheimildir færu á hverju einasta ári meira og minna á uppboð (Forseti hringir.) sem stríðir gegn þeim markmiðum sem okkur var sett að ná, þ.e. stöðugleika í sjávarútvegi til langs tíma og koma í veg fyrir þann óróleika (Forseti hringir.) sem hefur verið hér á undanförnum árum.