138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í raun taka undir hvert orð sem hv. þm. Björn Valur Gíslason hafði hér uppi. Það er með ólíkindum að heyra málflutning þann sem hv. þm. Þór Saari hefur hér í frammi þegar hann lætur að því liggja að engir í nefndinni hafi verið að hugsa um hag þjóðarinnar nema hugsanlega fulltrúi Hreyfingarinnar. Það er með ólíkindum að hlusta á þingmanninn halda þessu fram. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem þingmenn Hreyfingarinnar gera slíkt. Er það ekki í hag þjóðarinnar og hagnast þjóðarbúið ekki á því að meiri hlutinn leggi til að skýrt verði kveðið á um eign þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá? Það er stór áfangi og mikilvægur fyrir þjóðina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Nýtingarréttur á auðlindinni er líka lagður til, það er sem sagt verið að draga úr orðræðunni um eignarréttinn. Það er líka lagt til að innheimt verði ákveðin renta af auðlindinni. Þetta eru allt lykilatriði sem er búið að deila um í mjög langan tíma. Um þessar tillögur er nefndin meira og minna sammála.

Það er hins vegar alveg rétt að þarna inni voru aðilar með aðrar skoðanir. Úr því að hv. þm. Þór Saari talar um LÍÚ-tillögurnar — LÍÚ var reyndar mest á móti þessum tillögum — væri vert og forvitnilegt að hugsa um hverra erinda fulltrúi Hreyfingarinnar gekk í þessari nefnd ef hann var ekki sammála því að fara þessa leið til að bæta hag þjóðarinnar.

Gleymum því ekki, hv. þingmaður, að mestu skiptir fyrir íslenska þjóð að sjávarútvegurinn sé öflugur. Við eigum að gera kröfu um að hann sé vel rekinn, að sjálfsögðu, og skili miklum arði til þjóðarinnar. Það er gert með ýmsum hætti, bæði í afgjaldi og í gegnum fyrirtækin sem verða að vera vel rekin. (Forseti hringir.) Gleymum því ekki, hv. þingmenn, að tugir þúsunda Íslendinga hafa beina og óbeina atvinnu af sjávarútveginum í dag.