138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

orð þingmanna í umræðu um störf þingsins.

[11:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki hægt að hafa þennan dagskrárlið þannig að sumir þingmenn kjósi að misnota aðstöðu sína og fara með landráðabrigslum, beinum eða óbeinum, að mönnum eða þótt það sé hefðbundin umgengni Árna Johnsens um sannleikann, sem er alþekkt, (Gripið fram í: Segja háttvirtur þingmaður.) og að þeir sem skeytunum er beint að hafi ekki færi á að svara fyrir sig. Þannig getur það ekki gengið. Það hefur alltaf þótt ódrengskapur á þingi að tala gegn þeim sem eru dauðir í umræðum og geta ekki svarað fyrir sig. Sá siður er aflagður eins og fleiri góðir sem hér voru uppi hafðir. Það er sorglegt að sitja uppi með eintök eins og hv. þm. Þór Saari sem notar stöðu sína í ræðustól ítrekað með þeim hætti sem hér gerist. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem sagt var um Landeyjahöfn vil ég benda hv. þm. Árna Johnsen á að Landeyjahöfn var kláruð þrátt fyrir efnahagshrunið sem Sjálfstæðisflokkurinn kallaði yfir þjóðina. Það þurfti umtalsverðar aukafjárveitingar til og færslu fjármuna úr öðru. Herjólfur hefur þjónað Vestmannaeyingum vel í tæpa tvo áratugi. Hann er gott skip og hann leysti af hólmi annað og eldra sem ekki uppfyllti öryggiskröfur. Vill hv. þm. Árni Johnsen rifja upp vandræðaganginn sem var á því máli árin á undan (Forseti hringir.) í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins þegar nefnd eftir nefnd fór um lönd og álfur að leita að notuðum döllum? (Forseti hringir.) En það þurfti aðra ríkisstjórn og það þurfti mig sem samgönguráðherra til að taka ákvörðun (Forseti hringir.) um að byggja nýjan og góðan Herjólf sem hefur þjónað hlutverki sínu vel. Og skammastu þín, Árni Johnsen. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Forseti hringir.)