138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

meðferð einkamála.

687. mál
[11:11]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp á sér þau tildrög að nokkrir alþingismenn undir forustu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar lögðu á yfirstandandi þingi fram frumvarp til laga um hópmálsókn. Fjallað var um málið í allsherjarnefnd á nokkrum fundum og talið að það þyrfti skoðun sérfræðinga í réttarfari. Var samþykkt að leita til réttarfarsnefndar um samningu þessa frumvarps sem mundi mæta þeim sjónarmiðum sem þingmönnum var ætlað að ná og samdi réttarfarsnefnd frumvarpið að tilhlutan dómsmálaráðuneytis fyrir allsherjarnefnd.

Með frumvarpinu er lagt til að leitt verði í íslenskan rétt sérstakt úrræði til málshöfðunar sem svarar til þess sem nefnt hefur verið hópmálsókn og á sér fyrirmynd í rétti annarra ríkja. Þetta er mikilvæg breyting sem svarar kalli tímans eftir hrun, tillaga frá allsherjarnefnd allri sem lagt er til að þingið samþykki.