138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þann 1. október 2009 var stofnuð skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu og er skrifstofunni ætlað það lykilhlutverk að auka gæði lagasetningar og hafa samráð milli ráðuneyta um hvernig eigi að semja góð lagafrumvörp.

Á fundi allsherjarnefndar spurði ég sérstaklega hvort lagaskrifstofa forsætisráðuneytis hefði fengið þetta frumvarp til umsagnar, yfirferðar eða jafnvel að skrifstofunni hefði verið falið að semja frumvarpið. Svo var ekki. Ég fór því á fund allsherjarnefndar í gær og óskaði eftir því að á milli 2. og 3. umr. yrði frumvarpið sent til umræddrar lagaskrifstofu. Því var hafnað. Þarna sjáum við hver gæði lagasetningar á Íslandi eru. Forsætisráðuneytið fer ekki einu sinni eftir þeim starfsreglum sem hennar eigin undirstofnun setur sér. (Gripið fram í.)

Rekstur ráðuneytanna er 6 milljarðar kr. á ári. Það er lagður til sparnaður upp á 1% í þessu frumvarpi. Við framsóknarmenn sitjum hjá því að þetta er algjörlega (Forseti hringir.) óásættanlegt og raunverulega er skrípaleikur að þetta skuli vera komið hér fram.