138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina en verð reyndar að árétta að atriðið sem hann nefndi sem fyrri spurningu sína, um þá niðurstöðu dómsins að verið væri að brjóta á rétti borgaranna til að standa utan félaga og þar með einstaklinga sem vildu ekki taka þátt í fjármögnun samtaka sem þeir væru ekki sammála, er einmitt meginniðurstaðan í niðurlagi máls míns í ræðunni áðan. Ég tel að þetta sé nákvæmlega meginniðurstaða dómsins, að ekki eigi að þvinga einstaklinga til að taka þátt í fjármögnun samtaka sem þeir eru ósammála í grundvallaratriðum, þar á meðal um það atriði sem þingmaðurinn nefnir.

Ég er í prinsippinu á því að menn eigi að finna það upp hjá sjálfum sér að vera fylgjandi aðild að Evrópusambandinu því að það sé grundvallaratriði varðandi framtíðarhagsmuni þjóðarinnar og ekki eigi að þvinga nokkurn mann til þess.

Það er einnig rétt að árétta að með breytingartillögu okkar í iðnaðarnefnd, meiri hluta nefndarinnar, er einmitt lagt til að þessi lög verði afnumin frá og með næstu áramótum. Við tökum reyndar stærra skref með þeirri ákvörðun en gert var í frumvarpinu sjálfu því að í því var ekki kveðið á um að lögin skyldu afnumin. Þingmaðurinn spyr um fyrri ár. Það er í samhengi við þá umræðu sem við tökum ákvörðunina um að gjaldtakan sem slík sé ekki óheimil. Það er ekkert um það í dómnum sjálfum en ráðstöfunin til Samtaka iðnaðarins er klárlega óheimil samkvæmt dómnum.