138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þetta var einmitt það sem ég vildi fá fram til að skerpa á því að þetta væri í rauninni skoðanakúgun, þ.e. að menn væru látnir fjármagna skoðanir sem þeir væru á móti, og er ég ánægður með það. En mér finnst bæði frumvarpið og breytingartillögur nefndarinnar vera eins og menn geri þetta með hangandi hendi, þá langi ekkert til þess. Eins litlu er breytt og hægt er. Það er gengið eins langt í lögfræðinni og hægt er. Þegar kemur í ljós að lög frá Alþingi brjóta mannréttindi þá eiga menn að ganga vasklega til verks og afnema þau lög. Ég sé ekki annað fært. Það var gert þegar öryrkjadómurinn féll og kvótadómurinn. Þá var önnur ríkisstjórn sem gekk strax í að afnema viðkomandi ákvæði og breyta þeim þannig að mannréttindi væru ekki lengur brotin. Það er ekki gert núna. Núna er þetta mildað, gjaldið engu að síður lagt á fyrir árið 2009 og látið fara til sömu samtaka. Menn taka ekki á honum stóra sínum. Mannréttindabrot virðast ekki alltaf vera mannréttindabrot. Stundum eru mannréttindabrot slæm og stundum ekki.

Ég hefði viljað sjá nefndina taka vasklega til verks, alla vega í nefndaráliti, og geta einnig um önnur gjöld, eins og búnaðarmálagjaldið. Ég nefndi það í 1. umr. að ef hugsanlega fyndist einhver bóndi sem væri hlynntur því að ganga í Evrópusambandið væri hann kannski ekki ánægður með að þurfa núna að fjármagna áróður gegn Evrópusambandinu.

Ég minni á að BSRB hefur haft heilmiklar pólitískar meiningar og eru þó allir opinberir starfsmenn skyldaðir til að borga félagsgjald með lögum frá Alþingi. Það eru ekki samningar heldur eru það lög frá Alþingi sem skylda þá alla til að borga. Ég sakna þess að ekki sé minnst á þau mannréttindabrot.