138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum afnám laga um iðnaðarmálagjald. Við sjálfstæðismenn stöndum að nefndarálitinu sem hv. formaður iðnaðarnefndar fór yfir áðan, með fyrirvara þó. Mig langar að gera grein fyrir honum.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. formanns að breytingarnar sem dómurinn kallaði á voru ekki jafnmiklar og við gerðum. Dómurinn fjallaði eingöngu um ráðstöfun gjaldsins sem rynni til Samtaka iðnaðarins sem síðan mundu nota það m.a. í áróður sem félli skylduðum greiðendum ekki í geð. Við sjálfstæðismenn vildum ganga lengra og um það fjallar fyrirvari okkar. Við vildum að hætt yrði að innheimta gjaldið á þessu ári. Við sáum ekki ástæðu til þess að innheimta það sem rynni síðan í ríkissjóð þaðan sem því yrði úthlutað. Samtök iðnaðarins voru búin að lofa styrkjum til menntastofnana og ýmissa verkefna. Það hefði ekkert orðið af þessum styrkjum ef gjaldið hefði verið fellt niður. Þess vegna vildum við tiltaka hvert gjaldið ætti að fara. Okkur finnst samt sem áður að það hefði átt að fella niður gjaldið frá síðustu áramótum, hætta að innheimta það og þeir sem höfðu þegar greitt fengju endurgreitt.

Afnám þessara laga er hið besta mál og ég held að þetta hljóti að vera framtíðin. Nú þurfum við að taka út leifar fortíðar og skoða vel búnaðarmálagjaldið, gjöld í sjávarútvegi og hugsanlega einhver fleiri gjöld sem við fjölluðum um í nefndinni.