138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni framsögumanni fyrir ágætt innlegg þar sem hann tekur undir áhyggjur mínar. Reyndar er ein lenska sem ég vildi biðja hv. þingmann að endurskoða sem skýrslan góða og mikla kom inn á. Hún er sú að segja að vinna sé hafin á vegum framkvæmdarvaldsins. Það er Alþingi sem setur lög. Ég hef margoft sagt að það er Alþingi sem á að vinna lög. Ég legg nú til að nefndasviðið verði styrkt á Alþingi og fái það verkefni að grafa upp öll þessi gjöld sem um ræðir. Það var ekki rétt að ég hefði farið vel yfir allt sviðið því að ég rétt aðeins tæpti á því eftir minni. Mörg önnur gjöld koma upp í hugann, eins og félagsheimilagjald og orlofsheimilagjald hjá atvinnulífinu o.s.frv. Mann brestur minni og tíma til að telja þau öll upp.

Þessi gjöld voru ekki sett á tímabundið. Alþingi var meðvitað notað til að innheimta félagsgjöld fyrir vissa aðila, eins og Samtök iðnaðarins eða Félag íslenskra iðnrekenda eins og það hét þá. Þannig var bara hugsað. Það er miklu auðveldara að láta Alþingi innheimta þau gjöld sem fyrirtækin eru svo ófús að borga og tala jafnvel um að lækka þau eða eitthvað slíkt. Þetta var gert til þæginda fyrir viðkomandi félög og ætlað til þess að gera þeim lífið léttara. Þetta hafði í för með sér nákvæmlega það sem við sjáum hjá BSRB og Samtökum iðnaðarins, að viðkomandi félög breyttust í stofnanir. Starfsfólkið fær svipuð réttindi og tíðkast hjá opinberum starfsmönnum og lífeyrisréttindi. Annað dæmi eru Bændasamtökin en starfsmenn þeirra eru með lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, sem er alveg ótrúlegt.