138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er á þessu nefndaráliti og ætla örstutt að fara yfir rökin fyrir því. Ég hafi í sjálfu sér ákveðnar efasemdir þegar frumvarpið kom fyrst fram um hvert markmiðið væri með því í raun og hvað menn ætluðust til með því að leggja til að gjaldið rynni í ríkissjóð. Ég hef hins vegar í gegnum þetta ferli, sem við erum búin að fara í eftir ítarlega yfirlegu í nefndinni, eftir að hafa hlustað á marga og lesið mikið af gögnum, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé skynsamlegasta leiðin í þessu máli eins og það liggur fyrir.

Það eru vitanlega engin rök í því að innheimta áfram gjald sem enginn vill í rauninni innheimta. Hins vegar megum við ekki gleyma því að hluti þessa gjalds sem innheimtur hefur verið — vonandi stærsti hlutinn, það liggur ekki alveg ljóst fyrir, það er kannski vandinn — hefur farið í mjög góð verkefni sem tengjast iðnaði, menntun og ýmsu slíku. Ég hef áhyggjur af því. Þessi verkefni fara vitanlega ekki neitt heldur mun þrýstingur á ríkið aukast, þ.e. að setja fjármuni í verkefnin í framtíðinni, en það er auðvitað ákvörðun sem verður að taka á hverjum tíma varðandi slík mál.

Það er eðlilegt að umræðan um Mannréttindadómstólinn taki hér drjúgan tíma því að auðvitað er gríðarlega mikilvægt atriði að ekki sé verið að brjóta slík réttindi. Að mínu viti hjálpar til við að taka þessa ákvörðun að dómstóllinn komst, eins og hér hefur ítrekað komið fram, að þeirri niðurstöðu að það er í raun framkvæmd gjaldsins, þ.e. framkvæmdin af því hvernig því er ráðstafað, sem hann gerir athugasemdir við. Bent hefur verið á af löglærðum sérfræðingum sem komu fyrir nefndina að hægt væri að bregðast við því með lagabreytingu. Nefndin ákvað hins vegar að leggja ekki til breytingar á lögum til að halda áfram að innheimta gjaldið heldur fella það niður og láta andvirði þess renna að mestu í ríkissjóð.

Ég vil taka fram að ég er ekki viss um að akkúrat þessi dómur eða þetta álit eigi við um önnur gjöld sem eru innheimt hér á landi. Hins vegar er mikilvægt að fara yfir, eins og kemur fram að sé verið að gera, grundvöll þeirra gjalda sem verið er að innheimta og hvernig þeim er ráðstafað til að koma í veg fyrir að við brjótum mannréttindi og hafa framkvæmdina innan þeirra laga og reglna sem eru í gildi ef menn ætla sér að innheimta gjöldin áfram.

Ég held að niðurstaðan sem nefndin leggur til sé í sjálfu sér nokkuð góð fyrir alla eða flesta aðila. Að sjálfsögðu verða ekki allir ánægðir, það er bara eins og gengur í pólitík með ákvarðanir sem menn þurfa að taka. Ég vil þó benda á að svipuð gjöld sem þetta eru innheimt í öðrum löndum og tengjast ákveðnum hagsmunahópum eða apparötum sem til eru í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. Það réttlætir hins vegar ekki að farið sé á svig við mannréttindi. Því er mikilvægt að bregðast við. Eins og ég nefndi áðan hefðum við hugsanlega getað, frú forseti, brugðist við athugasemd dómsins og haldið áfram að innheimta gjaldið með einhverjum hætti. Það varð ekki niðurstaðan þannig að nú verður gjaldið innheimt að síðustu, svo fellur það niður.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég held að nefndin hafi komist að ágætri niðurstöðu í þessu máli.