138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

útlendingar.

585. mál
[14:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er þriðja og síðasta frumvarpið í þessum bálki, ef svo má segja, um breytingar á útlendingalögunum sem allsherjarnefnd hefur haft til meðferðar. Ég vil eins og aðrir sem hafa tjáð sig við þessa atkvæðagreiðslu þakka fyrir góða vinnu við öll þessi frumvörp, formanni nefndarinnar, og hér var sérstaklega nefndur hv. þm. Mörður Árnason, sem tók að sér ákveðna vinnu við vinnslu þessara mála, og það var góð samstaða um afgreiðslu þeirra á vettvangi allsherjarnefndar.

Ég vil líka, vegna þess að hér hefur verið haft á orði að það hafi orðið ákveðin viðhorfsbreyting til flóttamannamála og útlendingamála almennt í samfélaginu á undanförnum mánuðum og missirum, nota tækifærið og þakka fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, fyrir þátt hennar í þeim viðhorfsbreytingum sem orðið hafa. Mér finnst ástæða til að það komi hér fram. En ég ítreka svo þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í þessari vinnu og fagna því að þessi löggjöf er að verða að veruleika.