138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

orð utanríkisráðherra um þingmenn.

[10:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get upplýst forustu Framsóknarflokksins um að utanríkisráðherra kemur býsna vel undan sumri, raunar miklu betur en hann verðskuldar. Sjálfur telur utanríkisráðherrann að hann hafi verið í giska góðu skapi síðustu daga og jafnvel vikur og ekki síst eftir að ljóst varð að í landinu er meirihlutastjórn. [Hlátur í þingsal.]

Ég kannast ekki við að hafa farið með köpuryrði að Framsóknarflokknum. Mér þykir vænt um Framsóknarflokkinn, ekki bara vegna þess að hann hefur veitt mér syndugum annað og jafnvel þriðja tækifærið í lífinu, hugsanlega óverðskuldað líka, heldur ekki síst vegna sögu Framsóknarflokksins. Það var sama höndin sem skrifaði stefnuskrá Framsóknarflokksins upphaflega og íslenskra jafnaðarmanna og sú hugsun sem að baki bjó átti auðvitað að leiða til mun öflugra formlegs samstarfs millum þessara tveggja flokka en raunin varð kannski því að Jónas frá Hriflu sá fyrir sér þá draumsýn að verkamenn í borgunum og smábændur til sveita tækju höndum saman og störfuðu að uppbyggingu landsins. Hver veit nema draumur hans eigi eftir að rætast enn á ný á næstu missirum og árum — en ég er ekki spámaður.

Ástæðan fyrir því að ég kann að hafa tekið harkalega til orða um einn einstakan þingmann Framsóknarflokksins er eingöngu sú að ég nálgast þetta mál stundum frá sjónarhóli uppalandans. Ég vil reyna að segja fólki til. Í þessu ákveðna tilviki fór hv. þingmaður með rangt mál og ég varpaði upp þeirri spurningu hvort það kynni að vera vísvitandi eða hvort það væri vegna þess að þingmaðurinn væri orðinn of latur til að lesa heima. Ég svaraði ekki þeirri spurningu. Hv. þingmaður og forustumaður Framsóknarflokksins þekkir sitt fólk betur. Hann svarar kannski þeirri spurningu hér á eftir.

Ég vil bara lýsa því yfir að ef það er einhver flokkur sem ég ber virkilega (Forseti hringir.) hlýjan hug til og vil hjálpa og reisa upp er það Framsóknarflokkurinn. [Hlátur í þingsal.]