138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

starfsumhverfi gagnavera.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mjög mikil vinna hefur verið lögð í það í fjármálaráðuneytinu og af hálfu embættis ríkisskattstjóra að koma til móts við óskir gagnaveraaðilanna og eftir atvikum væntanlegra viðskiptavina þeirra sem vandamálið snýr meira að. (Gripið fram í: 10 mánuði.) Það má segja að það hafi verið sett í algeran forgang. Þannig var t.d. fjárfestingarsamningur íslenska ríkisins við Verne Holdings settur í forgang strax og Alþingi hafði afgreitt það mál, skjöl kláruð sem að því lutu að senda málið til Eftirlitsstofnunar ESA og þar er það nú til skoðunar. Samningurinn öðlast að sjálfsögðu ekki gildi fyrr en ESA hefur gefið grænt ljós á samþykki hans.

Það sem hefur komið í ljós er að gagnaveraaðilarnir eða fyrst og fremst væntanlegir viðskiptavinir þeirra gera þar til viðbótar kröfur um veruleg frávik og ívilnanir frá almennum skattareglum, sérstaklega það að þurfa ekki að skrá neina starfsemi hér á landi. Það leiðir til þess að upp koma vandamál sem sjálfkrafa leysast ef menn eru með skráða starfsemi hér og njóta þá þeirra réttinda sem tengjast skráningunni, svo sem varðandi innskatt og útskatt í virðisaukaskatti. Ef fallist er á að heimila ekki skráningu starfseminnar hér og veitt undanþága frá þeirri reglu með einhverjum sértækum hætti þarf eftir sem áður að leysa það sem snýr að virðisaukaskatti í sambandi við innflutning búnaðar og skattlagningu þjónustunnar út á við. Það er tiltölulega einfalt og verður væntanlega gert með breytingum á reglum að núllskatta þjónustuna út á við en eftir stendur þá vandamálið með búnaðinn.

Fjármálaráðuneytið telur að þessi atvinnurekstur geti orðið mjög gagnleg viðbót við atvinnuuppbyggingu í landinu, hefur þar af leiðandi skoðað og er að skoða það af miklum velvilja að koma til móts við þessar sérstöku óskir. Þær kalla á frávik frá almennum skattareglum í samskiptum ríkja og það er ekki einkamál okkar hversu langt er gengið frá þeim frávikum. Það þarf að standast samkeppnisreglur í Evrópu, það þarf að standast jafnræðisreglur (Forseti hringir.) gagnvart öðrum aðilum innan lands og þar fram eftir götunum. Og það væri til lítils farið af stað með slíkt ef við værum rekin til baka með allt saman vegna þess að það stæðist ekki.

Málið er óendanlega miklu flóknara en látið hefur verið (Forseti hringir.) í veðri vaka í umræðunni og það er ósanngjarnt og ómaklegt að halda því fram að íslensk skattyfirvöld, (Forseti hringir.) fjármálaráðuneyti og ríkisskattstjóri hafi ekki af miklum velvilja lagt (Forseti hringir.) mikla vinnu í að reyna að leysa þetta mál. (Gripið fram í.)