138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

starfsumhverfi gagnavera.

[10:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú er það vissulega svo að eðli þessarar starfsemi er sérstakt og má segja að það virði ekki landamæri í hefðbundnum skilningi. Þess vegna er skiljanlegt að upp komi það álitamál í hve ríkum mæli á að gera kröfu til þess að starfsemi sé skráð þar sem hún fer fram og að hún sé andlag skattlagningar í því landi. Það er hin almenna regla. Síðan gilda gjarnan tvísköttunarsamningar milli ríkja um það hvernig sköttunum er skipt ef starfsemi fer fram á tveimur stöðum.

Menn skulu hafa það í huga að það skiptir máli fyrir ekki bara íslenska ríkið heldur íslensk sveitarfélög að hin almenna regla sé sú að starfsemi sé andlag skattlagningar þar sem hún fer fram en komi ekki öll til skattlagningar í öðrum löndum. Við erum að skapa fordæmi hér og vonandi fyrir vaxandi iðnað og við þurfum að gæta að því hversu langt við getum gengið. Við teljum að það sé tiltölulega einfalt að leysa þann þátt sem snýr að sölu þjónustunnar úr landi með því að meðhöndla hana sem útflutning og núllskatta hana hér. Varðandi búnaðinn er málið stærra og flóknara. Ef viðkomandi aðilar, sem eiga búnaðinn hér, (Forseti hringir.) eru ekki tilbúnir til að skrá sig með starfsemi þarf greinilega að veita undanþágur (Forseti hringir.) sem eru óhefðbundnar, ganga gegn almennum skattareglum og er ekki (Forseti hringir.) víst að Ísland komist upp með.