138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

IPA-styrkir frá Evrópusambandinu.

[11:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eðlilega er mörgum hugleikið með hvaða hætti hægt sé að ná fjármagni inn í landið í tengslum við þá aðildarumsókn sem í gangi er. Eins og þingmaðurinn minntist á eru í því ferli sérstakir IPA-styrkir í boði, (Gripið fram í.) til þess að aðlaga strúktúr umsóknarlandsins að þeim strúktúr eða uppbyggingu og kerfi sem er í Evrópusambandslöndunum.

Nú minni ég á að þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild var lögð áhersla á, að því er ég skildi málið, að verið væri að sækja um aðild til fara yfir þá samningskosti sem í stöðunni gætu verið og bera saman þá möguleika sem við hefðum með því að ganga í sambandið og þá sem við hefðum með því að ganga ekki í það og líka hvar þeir þættir sköruðust að okkur þættu kröfur Evrópusambandsins gjörsamlega óásættanlegar, líkt og þær sem komu fram í áliti framkvæmdanefndarinnar frá því í vor.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því að í gegnum þessa IPA-styrki væri hægt að senda fjármagn inn í landið til þess að undirbúa Ísland undir það fyrir fram að taka upp reglugerðir eða innri uppbyggingu samfélagsins miðað við það (Forseti hringir.) sem yrði síðan í Evrópusambandinu eftir á. Ég get ekki svarað fyrir Bændasamtökin í þessu efni, frú forseti, en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur ekki sent umsóknir (Forseti hringir.) varðandi þessa styrki.