138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina þeim orðum í fullri vinsemd til hæstv. forseta Alþingis að hún óski eftir því við hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands að þeir svari efnislega þeim spurningum sem stjórnarandstöðuþingmenn beina til þeirra, hvort sem þær eru hæstv. ráðherrum þóknanlegar eða ekki. Við sem sitjum hér í stjórnarandstöðunni þurfum allt of oft að sæta því að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni svari ekki þeim spurningum sem til þeirra er beint nema með einhverjum útúrsnúningum. Það gerðist nú síðast hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hv. þm. Óli Björn Kárason spurði hæstv. ráðherra út í kyrrstöðusamninga sem ákveðnir einstaklingar sem hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi hafa fengið hjá íslenskum viðskiptabönkum og spurði hvort þess væri að vænta að heimilin og fyrirtækin í landinu fengju sambærilega meðferð. (Forseti hringir.)

Þessum spurningum var svarað út í bláinn af hæstv. ráðherra og við sem sitjum hér í stjórnarandstöðunni sættum (Forseti hringir.) okkur ekki við þessa framgöngu og það gerir fólkið í landinu ekki heldur. (Forseti hringir.) Ég óska því eftir því að hæstv. forseti ræði þessi mál við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og að málið verði tekið upp í forsætisnefnd þingsins.